143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

nauðungarsölur og dómur Evrópudómstólsins.

[15:23]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Það er mikil ánægja að fara yfir málið aftur. Ástæðan fyrir því að innanríkisráðherra gerir ekki það sem hv. þingmaður er að krefjast að innanríkisráðherra geri er að innanríkisráðherra er ekki sömu skoðunar og þingmaðurinn. Það hefur ítrekað komið fram að innanríkisráðherra hefur látið kanna málið, eins og ég hef líka sagt hér áður, og er ekki talinn hafa lagalegar heimildir til að gera það sem þingmaðurinn óskar eftir að sé gert. Þess vegna er — og nú hristir þingmaðurinn höfuðið — og aftur bendi ég þingmanninum á — hann getur alveg hrist höfuðið eins mikið og hann vill og horft á pappírana eins oft og hann vill, hann er þingmaður á löggjafarþinginu, hv. Alþingi, (Gripið fram í.) hann getur flutt tillögur og fengið löggjafann í lið með sér til að innanríkisráðherra verði þvingaður til að gera ákveðna hluti. Það er vald löggjafans. (JÞÓ: Löggjafinn …) Nei, það er ekki talið þannig, hv. þingmaður, aftur og aftur og aftur. Það er ekki talið vera með þeim hætti sem hv. þingmaður fer hér aftur og aftur með. Þess vegna hvet ég þingmanninn, og ég ítreka það, til að flytja mál, fá löggjafann í lið með sér, ef þingmaðurinn er svona sannfærður (Forseti hringir.) hlýtur þingheimur líka að verða það og þá er innanríkisráðherra krafinn til þess að gera það. Ég hef leitað álits, hef mörgum sinnum sagt það, hv. þingmaður, og ég er ekki talin (Forseti hringir.) hafa þá heimild sem hv. þingmaður telur að innanríkisráðherra hafi þannig að ég hvet hann til þess að búa til þá heimild í gegnum löggjafann. (Gripið fram í.)