143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

framkvæmdir við Vestfjarðaveg nr. 60.

[15:24]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hæstv. innanríkisráðherra um framkvæmdir við Vestfjarðaveg nr. 60. Eins og margir vita er vegurinn mjög illa farinn og mjög hættulegur á köflum. Á leið hans eru erfiðar heiðar og hálsar sem lokast oft þegar vetrarveður gengur yfir landið og ekki þarf eingöngu vetrarveður til að loka veginum því að mikil bleyta verður einnig til þess að vegurinn verði ófær.

Þetta hefur þau áhrif að sunnanverðir Vestfirðir einangrast þar sem ekki er heldur hægt að treysta á samgöngur yfir á norðanverða firði. Það ástand er ekki gott fyrir fyrirtæki og íbúa á svæðinu. Fyrirtæki á svæðinu hafa lent í því að komast ekki með vörur út fyrir svæðið eða inn á það hvað varðar verslun og þjónustu. Einnig hafa útgerðarfyrirtæki átt í vanda með að koma verðmætu hráefni frá staðnum til útflutnings.

Til að sunnanverðir Vestfirðir verði samkeppnishæfir við aðra landshluta er nauðsynlegt að kippa samgöngunum í lag. Í sumar var haldið samgönguþing á Tálknafirði en þar voru samgöngumál á Vestfjörðum til umræðu. Þar var til umræðu leið B1 um Teigsskóg og ákveðið að reynt yrði að fara þá leið til að gera Vestfjarðaveg nr. 60 að heilsársvegi.

Mig langar að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hver staðan er í samgönguáætlun um Vestfjarðaveg nr. 60 eftir að Skipulagsstofnun hafnaði leið B1 í sumar. Er leið B1 komin aftur inn á borð Skipulagsstofnunar, hver er staðan í því ferli? Ef svo er, hvenær má vænta niðurstöðu í þeim málum og ef leið B1 verður ekki samþykkt, hvenær á þá að taka ákvörðun um nýja leið?

Íbúar sunnanverðra Vestfjarða hafa beðið lengi eftir öruggum heilsársvegi og ekki er hægt að mínu mati að láta þá bíða mikið lengur. Línan þarf að verða skýr í þessum málum.