143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

framkvæmdir við Vestfjarðaveg nr. 60.

[15:28]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir svörin. Ég vil einnig ítreka það aftur að mikilvægt er að lending fari að verða í samgöngumálum á Vestfjörðum — ég veit að hæstv. innanríkisráðherra mun beita sér fyrir því — og mikilvægi þess að staðið verði við samgönguáætlun.

Á sunnanverðum Vestfjörðum er mikill uppgangur í atvinnulífinu og því er sorglegt að ekki hafi verið hægt að treysta á samgöngur til að koma verðmætum til og frá svæðinu.

Einnig langar mig að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort fjármögnun fyrir þeim framkvæmdum sé tryggð. Að lokum vil ég biðja hæstv. innanríkisráðherra að vera dugleg að upplýsa okkur um gang þessara mála þegar ákvarðanir hafa verið teknar.