143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

uppbygging fjölsóttra ferðamannastaða.

[15:30]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að vöxtur ferðaþjónustunnar er mikill. Það hefur dregið athyglina að mikilli þörf fyrir uppbyggingu á fjölsóttum ferðamannastöðum og úrbætur í sambandi við þjóðgarða og friðlýst svæði ásamt því að þörf er á að byggja upp nýja áfangastaði fyrir ferðamenn og draga þá út á fleiri svæði og dreifa þannig álaginu af miklum fjölda þeirra.

Í gangi er mikið átak, langmesta átak sögunnar í uppbyggingu á fjölsóttum ferðamannastöðum í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum. Varið verður um 850–900 millj. kr. á þessu ári úr fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar og með tekjum af gistináttagjaldi til margvíslegra framkvæmda á þessu sviði.

Hins vegar eru horfurnar fyrir næsta ár afar óljósar. Hugmyndir hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar virðast helst vera þær að koma á svonefndum náttúrupassa eða ferðakorti, en nú hefur til að mynda formaður Samtaka ferðaþjónustunnar stigið fram og sagt að það sé með öllu óraunhæft að ætla að upptaka slíks passa verði fyrr en á árinu 2015. Sömuleiðis hafa ýmir fagmenn, svo sem ofan úr háskóla á sviði ferðamála, varað við því að náttúrupassi eða ferðakort sé ekki endilega besta leiðin og bent á ýmsa ágalla í því sambandi, mælt jafnvel frekar með beinni gjaldtöku í formi gistináttagjalda, farseðlaskatta eða annars slíks.

Spurning mín til hæstv. ráðherra hlýtur því að vera nú: Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að tryggt verði að haldið verði áfram þessari bráðnauðsynlegu uppbyggingu og úrbótum á næsta ári? Verða tryggðir fjármunir til þess á fjárlögum þegar ljóst virðist vera að tekjur í gegnum náttúrupassa eða annað slíkt muni ekki skila sér? Eða verður árið 2014 ár glataðra tækifæra í þessum efnum og hverfandi möguleikar á því að halda áfram (Forseti hringir.) úrbótum?