143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

uppbygging fjölsóttra ferðamannastaða.

[15:36]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það er gott að hv. þingmaður, fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra, viðurkennir núna að gistináttagjaldið sé misheppnað, af því komi bara einhverjir aurar. Það var það sem við gagnrýndum á síðasta kjörtímabili.

Ég get fullvissað hv. þingmann um að það verða framkvæmdir og fjármagn til þessara mála, fyrrnefnt gistináttagjald, og svo vil ég einnig benda hv. þingmanni á að ekki hefur náðst að úthluta öllum þeim fjármunum sem voru lagðir í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða vegna þess að verkefnin voru ekki komin nægilega langt á veg, þannig að fjármagnið hefur ekki verið sótt. Ég man ekki tölurnar nákvæmlega akkúrat á þessari stundu, en fyrr á árinu þurfti að endurúthluta vegna þess að það er bundið þeim skilyrðum að mótframlag komi fram en það hefur stundum ekki tekist þannig að sjóðurinn hefur ekki verið tæmdur.

Fögur orð eru alla vega byrjunin á góðum hlutum og ég hvet (Forseti hringir.) hv. þingmann til að koma með okkur í þann leiðangur að tryggja til langframa fjármögnun vegna þess að þar erum við sammála. Úr þessu þarf að bæta og það er stefnan.