143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

lengd þingfundar.

[15:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þingflokkur Samfylkingarinnar leggst ekki gegn því að hér verði fundað fram eftir kvöldi í kvöld, (Gripið fram í.) það er sjálfsagt að greiða fyrir störfum þingsins með þeim hætti, en það er ákaflega dapurlegt verklag að hér þurfi vegna málafæðar fyrir komandi nefndadaga að efna til sérstaks kvöldfundar til að koma þó einhverju efni inn á nefndadagana. Hér hafa verið þingdagar þar sem hefur orðið að hætta á hádegi vegna þess að ekki hafa legið nein mál fyrir frá ríkisstjórninni, kannski sem betur fer. Þau mál sem eru á dagskrá í dag eru mörg endurflutt mál ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og sjálfsagt að taka þeim vel í þinginu eins og þeim málum sem koma frá Evrópusambandinu og hér hafa verið kannski hvað mest áberandi.

Ég hvet hæstv. forseta til að leggja á það áherslu við ríkisstjórnina að hér komi fram þingmál. Það er algerlega óboðlegt að fjáraukalagafrumvarpið sé ekki komið fram á þessari stundu. (Gripið fram í.) Og það að nú sé í annað sinn fundarfall í fjárlaganefnd og í upphafi nefndadaganna sé búið að tilkynna um (Gripið fram í.) fundarfall í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á morgun — þetta er (Forseti hringir.) satt að segja ekki mjög gott. [Háreysti í þingsal.] (Gripið fram í: Þetta er ekki að gera sig, herra forseti.)

(Forseti (KLM): Forseti lítur svo á að ekki hafi komið fram ósk um atkvæðagreiðslu og skoðast þá tillagan samþykkt.)