143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

málefni RÚV.

[15:48]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir að vekja máls á fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins og áherslum varðandi strauma og stefnur. Allt eru þetta mikilvæg málefni sem við eigum alveg örugglega eftir að ræða oftar í þingsal.

Hvað varðar í fyrsta lagi fyrsta þátt málsins sem hv. þingmaður opnaði hér á, þann sem snýr að stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði og þá yfirlýsingu sem ég gaf fyrir skömmu um að ég mundi leggja til við Alþingi breytingar á því fyrirkomulagi sem birtist í frumvarpi til fjárlaga, hafði ég lagt það upp að dregin yrði til baka sú 215 millj. kr. hækkun sem ætlað var að rynni til Ríkisútvarpsins af fjárlögum en í staðinn fengi Ríkisútvarpið til baka hluta af því svigrúmi sem það hafði á auglýsingamarkaði. Þar horfi ég til þess að fjöldi þeirra mínútna sem er til ráðstöfunar fyrir Ríkisútvarpið var tekinn úr tólf niður í átta, en því yrði snúið þannig að Ríkisútvarpið hefði aftur tólf eins og áður var en það hefði ekki áhrif á til dæmis kostun eða möguleika Ríkisútvarpsins til að rjúfa dagskrárliði með auglýsingum o.s.frv. Það verður með afmörkuðum hætti, það stendur alls ekki til, eins og stundum hefur verið sagt í umræðunni, að hleypa Ríkisútvarpinu lausu inn á auglýsingamarkaðinn. Þarna er um mjög afmarkaða aðgerð að ræða en það þýðir samantekið eins og fram kemur í fjárlagafrumvarpinu að þeir fjármunir sem Ríkisútvarpið mun hafa úr að spila verða minni en áður. Það liggur alveg fyrir.

Hvað varðar upplýsingagjöf frá Ríkisútvarpinu til mín sem ráðherra um þessi mál, hvernig það bregst við, með hvaða aðgerðum o.s.frv., er þarna svolítið flókið mál á ferðinni. Ég veit að hv. þingmaður þekkir það. Það eru takmarkanir á upplýsingagjöf sem getur orðið um fjárhagsleg málefni Ríkisútvarpsins vegna þess að RÚV er með skuldabréf sem eru skráð á opinberum markaði. Það þýðir að upplýsingagjöf þarf að miða við það þannig að til að ég fengi slíkar upplýsingar sem ráðherra þyrfti að skrá mig sem innherja og fái ég slíkar upplýsingar í hendurnar — og þá er ég í stöðu innherja — get ég heldur ekki deilt þeim opinberlega. Upplýsingar um þessa stöðu verða að koma frá Ríkisútvarpinu ohf. sjálfu til Kauphallar eftir ákveðnum leiðum vegna þess að skuldabréfin eru skráð þar inni. Ég veit að þetta takmarkar mjög möguleika mína til að ræða þetta en þannig eru reglurnar.

Mér finnst þó eitt mikilvægt í því sem hér hefur komið fram, mikilvægi þess að við tjáum okkur um stefnu í þessu máli, stöðu stjórnarinnar og að eigendurnir þurfi að koma að stefnumótun, akkúrat þau rök sem ég færði fyrir því að við héldum áfram að hafa það fyrirkomulag að stjórn þessarar stofnunar væri skipuð úr þessum sal. Við erum einmitt fulltrúar eigendanna, fulltrúar þjóðarinnar sem sitjum hér og förum með þessi mál og þetta eru sameiginleg málefni. Þess vegna var ég ekki þeirrar skoðunar að það væri eðlilegt að hagsmunasamtök og aðrir ættu að hlutast til um það hverjir sætu í stjórn þessarar stofnunar.

Hvað varðar þjónustusamninginn þarf að ráðast í að endurnýja hann. Það eru hafnar viðræður milli menntamálaráðuneytisins annars vegar og Ríkisútvarpsins hins vegar. Áhersluatriði mín í þessu máli eru þau að ég tel að öllu skipti fyrir Ríkisútvarpið að horfa til þess hvað það er sem RÚV gerir, sem markaðurinn gerir ekki, ef svo má að orði komast. Það er lykilatriði að tryggja breidd í efnisframboði, ekki þannig að Ríkisútvarpið sé til dæmis útvarp fyrir alla alltaf. Það á auðvitað að horfa fyrst og síðast á það sem markaðurinn getur ekki leyst og leysa það. Það snýr fyrst og fremst að sögu þessarar þjóðar, menningu hennar og listum þar sem má segja og halda fram með rökum að kannski sé takmarkaður, hefðbundinn markaður fyrir slíku efni. Það er þó efni sem er nauðsynlegt og verður að vera til. Þess vegna held ég að við hv. þingmaður deilum til dæmis þeirri áherslu að við viljum sjá því efni sem á Rás 1 er gert hátt undir höfði. Það skiptir máli, það er mín pólitíska skoðun og það er það sem þessi starfsemi gengur út á, að mæta þessari þörf til að tryggja breitt framboð af vönduðu efni og að það séu rökin fyrir því að við erum með Ríkisútvarpið.

Það er margt annað sem hv. þingmaður kom inn á sem ég get mætt í seinni ræðu minni (Forseti hringir.) og bið hv. þingmann að hafa þolinmæði gagnvart því að ég hafi ekki náð að svara öllu sem var tekið fyrir.