143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

málefni RÚV.

[16:10]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir umræðuna um blessað Ríkisútvarpið. Við höfum nú rætt þetta áður eftir að við byrjuðum á þingi, við þessi nýju, eins og á sumarþinginu. Mér finnst það alltaf sorglegt hvernig umræðan er í þjóðfélaginu um þessa mikilvægu stofnun sem mér finnst Ríkisútvarpið vera. Hún er alltaf um að það séu pólitískir menn sem vinni þarna og gangi erinda hinna og þessara, sem er alveg ótrúlega sorglegt því að mér finnst þetta svo mikilvæg stofnun fyrir okkur öll.

Mér finnst t.d. að við eigum að vera að ræða hvaða hlutverk Ríkisútvarpið eigi að hafa. Kannski á hæstv. menntamálaráðherra bara að koma með stefnuna: Hvernig vilja þeir hafa þetta? Hvernig viljum við sjá Ríkisútvarpið fyrir okkur í framtíðinni og hvaða hlutverki á það að gegna?

Það á náttúrlega að vera vagga íslenskrar dagskrárgerðar og það er það að mörgu leyti og hefur lagast mikið á síðustu árum. En við eigum kannski að leggja enn þá meiri áherslu á fréttaskýringa- og heimildaþætti um málefni líðandi stundar, fræða t.d. almenning í landinu um hvað er að gerast hér inni miklu meira en gert er í fréttatímum. Oftast eru fréttatímarnir þannig að þeir skilja eftir miklu fleiri spurningar en þeir svara. Við sjáum hvernig þetta er annars staðar á Norðurlöndunum, þar eru fréttaskýringaþættir á hverjum einasta degi þar sem stjórnmálamenn koma og ræða málefni líðandi stundar. Þannig mundum við skapa miklu meira gagnsæi í stjórnsýslunni en er í dag.

Þannig eigum við að horfa á ríkissjónvarpið og Ríkisútvarpið. Það er okkar hlutverk hér inni að búa til stefnu sem við getum verið sátt við varðandi Ríkisútvarpið í staðinn fyrir að standa í endalausum deilum um þessa stofnun sem er okkur svo gríðarlega mikilvæg. Þar með erum við ekki að segja að ekki sé hægt að gera breytingar á henni. Þá ræðum við þær bara, komum með tillögur og ræðum þær efnislega hér í þingsal.

Fyrir mér er Ríkisútvarpið mjög mikilvægt og það er mikilvægt fyrir okkur öll. Ég vona að okkur takist að mynda einhverja sátt um framtíðarstefnu í þeim efnum.