143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

málefni RÚV.

[16:12]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fullvissa þá sem koma hér í ræðustól Alþingis og búa til einhvers konar samsæriskenningar um að Framsóknarflokkurinn sé andsnúinn RÚV um að sá ótti er óþarfur. Það hefur að minnsta kosti verið mín stefna að standa vörð um RÚV, en ég vil segja að fréttaskýringar og efnistök Ríkisútvarpsins eru ekki hafin yfir gagnrýni frekar en önnur mannanna verk. Ég man eftir því að ég leyfði mér að gagnrýna þá ákvörðun á sínum tíma að leggja niður svæðisbundnar útsendingar sem ég taldi, og ég er enn þá þeirrar skoðunar, misráðið af stjórnendum RÚV og því miður gera það að verkum að umræða um allt landið um þau mál sem snúa að landsbyggðinni varð minni og kannski ekki eins vönduð, þótt ég viti að allir eru að gera sitt besta. Menn hafa kannski vonað og ég saknaði þess að heyra það í máli hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur þegar hún minntist á hið mikilvæga menningarlega hlutverk sem við verðum að horfa til varðandi Ríkisútvarpið, að hún skyldi ekki minnast á þann þátt að Ríkisútvarpið verður að sjálfsögðu að halda uppi umræðu hringinn í kringum landið.

Ég vil svo taka undir með hv. þm. Guðbjarti Hannessyni og óska Kastljósi til hamingju með þeirra verðlaun, þetta var góð og gagnleg umræða um misnotkun á börnum, efnistök voru góð. Ég vil þó segja eitt. Það er hárrétt sem kom fram hér áðan að full samstaða var um það í fjárlaganefnd að hinar mörkuðu tekjur mundu ekki renna allar, 100%, til þeirra stofnana. Hugsunin var að ná fram aga á ríkissjóði sem er kannski stærsta og veigamesta verkefni okkar alþingismanna í dag. Þrátt fyrir þá samstöðu fór hin höndin á ríkisstjórninni í þá átt að færa allar mörkuðu (Forseti hringir.) tekjurnar til baka. Ég held að það þurfi reyndar að (Forseti hringir.) ræða málefni RÚV betur og oftar hér úr þessum ræðustól.