143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

málefni RÚV.

[16:14]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það var mikið rætt um það í eftirmála hrunsins hversu mikilvægt væri að við værum hér með sjálfstæða fjölmiðla. Eitt af lykilatriðunum í því að fjölmiðlar geti verið sterkir og sjálfstæðir er að tekjurnar til þeirra séu afmarkaðar og þeir séu ekki upp á duttlunga stjórnmálamanna komnir. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Þess vegna segi ég enn og aftur að mér finnst furðulegt að ef búið er að afmarka tekjur sem eru í raun og veru afmarkaður skattur af almenningi til tiltekinna verkefna, af hverju í ósköpunum rennur það ekki óskipt til þeirrar stofnunar? Annars á ekki að kalla þetta nefskatt fyrir RÚV. Þá er það lygi. Mér finnst það alvarlegt mál.

Mig langar, ef ráðherra hefur tíma til að svara öllum þeim spurningum sem hefur verið beint til hans, að spyrja hver stefna ráðherrans er. Ég veit að hæstv. ráðherrann hefur sennilega ekki tíma til að svara því ítarlega en hver er stefna ríkisstjórnarinnar og hæstv. ráðherra gagnvart RÚV og þeirri nauðsynlegu þróun sem þarf að eiga sér stað hjá stofnuninni til þess að komast betur inn í nútímann? Það er jafnvel mikil hagræðing fólgin í því og væri gagnlegt að fá hreinlega skýrslu frá ráðherra síðar á kjörtímabilinu um þá stefnu. Ég ítreka að við, bæði þingmenn og framkvæmdarvaldið, verðum að tryggja fullkomið sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Það er svo mikilvægt. Ég er alveg sammála hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni um að við þurfum einhvern veginn að finna leið til að tryggja að landsbyggðin fái þann vettvang sem hún hafði áður (Forseti hringir.) og við þurfum að finna leiðir til þess að endurbyggja það starf.