143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

málefni RÚV.

[16:19]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þær þakkir sem hér hafa verið færðar um þessar umræður.

Hvað varðar hlutverk Ríkisútvarpsins um að það eigi ekki einungis að vera menningarhlutverk heldur eigi það líka að vera til skemmtunar þá held ég að það fari ágætlega vel saman, að menning sé skemmtileg og hún er auðvitað eitthvað, sé vel haldið á spilunum, sem ætti að vera til ánægju og yndisauka og skemmtileg.

Hvað varðar nefskattinn og þá umræðu verð ég að segja að mér finnst ákveðins misskilnings gæta hér. Þó að búið sé að ákveða nefskatt þá getur löggjafinn breytt upphæð nefskattsins. Að tala um að það sé einhvers konar öryggi fyrir einhverja stofnun að hún fái alltaf einhverja fasta fjármuni af því að um er að ræða markaðar tekjur frekar en nefskatt, það er bara mjög rangt. Þingið getur alltaf breytt upphæð nefskattsins með sama hætti og það breytir tölunum í fjárlögunum. Þessi umræða er því svolítið á villigötum.

Hér var nefnt, virðulegi forseti, af hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur að það hefði eitthvað haft að gera með persónu fyrrverandi hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur hvaða fyrirkomulag var sett á. Það er algjörlega fráleitt og ég vísa því algjörlega á bug. Þeir sem skoða þá umræðu sem var hér sjá auðvitað að enginn fótur er fyrir þeirri yfirlýsingu og mér finnst hún frekar ósmekkleg, virðulegi forseti.

Hvað varðar að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði þá er rétt að halda því til haga að það er ekki svo að Ríkisútvarpið hafi verið alfarið tekið af auglýsingamarkaði eins og stundum er talað um hér. Langt í frá, það hefur gríðarlegar tekjur af auglýsingamarkaði. Það eina sem ég hef verið að leggja af snýr að því að segja: Þær auglýsingamínútur sem áður voru tólf verði færðar niður í átta. Ég hef verið að leggja upp með að farið verði aftur til baka, úr átta í tólf. Aðrir þættir sem snúa að auglýsingamarkaðnum og hafa verið takmarkaðir, ég hef ekki nefnt þá.

Það sem ég hef aftur á móti gert — og þá kemur að svari mínu við hv. þingmann — ég hef kynnt þessa tillögu mína fyrir fjármálaráðherra og hann mun síðan væntanlega í samráði við formenn efnahags- og viðskiptanefndar og fjárlaganefndar skoða þá útfærslu, bæði hvað varðar bandorm (Forseti hringir.) varðandi að fresta því að ákveðin ákvæði í nýjum lögum taki gildi hvað varðar auglýsingarnar (Forseti hringir.) og einnig um ráðstöfun þeirra fjármuna sem mundi sparast við þessa aðgerð.