143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

beiðni um gesti á fund fjárlaganefndar.

[16:22]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Sú furðulega staða er komin upp í hv. fjárlaganefnd að formaður fjárlaganefndar hefur hafnað beiðni þriggja fulltrúa nefndarinnar um gestakomu fyrir nefndina. Beiðnin er mjög hógvær, það er beðið um gesti til þess að fara yfir stóra málaflokka til að undirbyggja umfjöllun nefndarinnar um fjárlagafrumvarpið. Hv. formaður fjárlaganefndar hafnar þeirri beiðni. Nú er það ekki svo að ekki sé tími í nefndinni vegna þess að fundarfall var á mánudaginn og það er einnig boðað fundarfall á morgun.

Ég vil biðja hæstv. forseta að hlutast til um að hv. formaður fjárlaganefndar endurskoði afstöðu sína og eðlileg vinna geti farið fram á fundartíma nefndarinnar.