143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

beiðni um gesti á fund fjárlaganefndar.

[16:23]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur og benda á að í 25. gr. þingskapalaga kemur fram að fjárlaganefnd eigi rétt á því að fá þær upplýsingar sem hún telur nauðsynlegar um rekstur og fjárhagsáætlanir fyrirtækja og stofnana sem óska eftir framlögum úr ríkissjóði. Við höfum óskað eftir gestalista sem snýr beint að undirstofnunum þingsins þar sem stórir og miklir póstar eru.

Ég vakti athygli á því áðan að fram undan eru fjórir nefndadagar og eins og bent var á áðan var fundarfall á mánudag og aftur á morgun. Það á að funda um fjárlögin á föstudaginn en ekki hefur fengist staðfesting á því að við getum fengið til fundar þá sem við óskuðum eftir þrátt fyrir að við bæðum hv. formann fjárlaganefndar að endurskoða hug sinn og ljóst er að fresta þarf 2. umr. fjárlaga vegna þessa, þ.e. að hvorki fjáraukinn né tillögur eru komnar til nefndarinnar er varða umræðuna.

Það er með öllu ótækt, virðulegi forseti, að hægt sé að hafna beiðni nefndarmanna, þriggja nefndarmanna, við erum að tala um (Forseti hringir.) nægjanlegan fjölda nefndarmanna til að biðja um fund og það hlýtur að vera sami fjöldi sem dugar til að biðja um gesti inn á fund.