143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:25]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég bíð bara róleg eftir að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra komi í salinn. Virðulegi forseti. Ég flyt hér síðari ræðu mína í 1. umr. Ég vil taka það fram í upphafi máls míns að ég fagna því sem hefur komið fram við þessa umræðu í máli hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar, formanns umhverfis- og samgöngunefndar, um það vinnulag sem hann hyggst viðhafa í hv. umhverfis- og samgöngunefnd við vinnslu málsins. Það hefur komið fram að leitað verður umsagna frá þeim aðilum sem á sínum tíma veittu umsögn um náttúruverndarlögin og við munum fá góðan tíma til að fara yfir það mál með þeim aðilum og fá þá á fund nefndarinnar. Ég vil fyrst lýsa ánægju minni með þetta vinnulag.

Ástæða þess að ég bað aftur um orðið er að ég kom því hreinlega ekki að í þeirri 20 mínútna ræðu sem ég hélt í fyrradag sem varðar mjög mikilvægan þátt í því sem ég tel felast í því ef lögin sem eiga að taka gildi í apríl falla brott og við munum hverfa aftur til ársins 1999 í lagaumhverfi náttúruverndar. Sá þáttur lýtur að 57. gr. laganna sem eiga að taka gildi í apríl og er ætlað að taka við af 37. gr. gildandi laga frá 1999.

Þessi grein var töluvert rædd á sínum tíma þegar lögin voru samþykkt. Þar má segja að til framfara horfi að andlag verndunar sé betur skilgreint en í gildandi lögum. Þar eru stærðarmörk þrengd og við bætist verndarflokkur birkiskóga. Það kom fram tvenns konar gagnrýni á breytingarnar sem gerðar voru á greininni. Gagnrýnd voru ný stærðarmörk, þ.e. votlendismörkin, þar sem má segja að vernd náttúrunnar og margvíslegrar þjónustu standi gegn hagsmunum framkvæmdaraðila og stundum samfélagshagsmunum sem varða kostnað við framkvæmdir. Það er nauðsynlegt að minna þar á hnignun votlendis á Íslandi síðustu áratugi og aldir, það hefur auðvitað verið í brennidepli vegna loftslagsbreytinga.

Í athugasemdum við frumvarpið kom fram á sínum tíma að þriggja hektara mörkin tækju til 60% af óröskuðu votlendi, en eins hektara mörk tækju til 95% óraskaðs votlendis. Það verður að hafa í huga þegar við ræðum verðmæti votlendissvæðanna sem fer auðvitað ekki nema að hluta til eftir stærð þeirra.

Það varð eiginlega niðurstaðan að stærðarmörk geta aldrei verið neitt annað en ónákvæm nálgun í sjálfu sér. Það verður í raun að meta hvert tilvik um sig. Það er vart hægt að koma fullnægjandi skilyrðum fyrir í lög þannig að þau taki af öll tvímæli.

Þá voru í þessari grein gagnrýnd skilyrði sem voru sett við röskun. Þau voru talin íþyngjandi fyrir framkvæmdir og starfsemi. Í skilyrðum frumvarpsins er sem sagt tiltekið bann við röskun „nema brýna nauðsyn beri til“ enda séu ekki í boði aðrir kostir. Það snýst í raun og veru um það, ef um er að ræða náttúrufyrirbæri sem kveðið er á um í 57. gr., að það þurfi að koma til brýn nauðsyn til að ráðist sé í framkvæmdir.

Þetta var vissulega gagnrýnt. Vissulega er þetta hamlandi fyrir framkvæmdaraðila, en þetta sýnir auðvitað líka breytt viðhorf til náttúrunnar í lögunum, að hún njóti vafans með sanni.

Það sem mér finnst kannski ástæða til að nefna í þessari stuttu sérræðu er að 37. gr. laganna frá 1999 hefur reynst mjög haldlítil. Ef við ætlum að bakka aftur í lagaumhverfi frá 1999 verðum við að horfast í augu við að 37. gr. veitir ekki þá vernd sem henni er ætlað.

Í nefndaráliti þáverandi meiri hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar er vitnað í rannsókn sem ber heitið Áhrif 37. gr. náttúruverndarlaga á framkvæmdir, frá 2008. VSÓ ráðgjöf vann þá rannsókn með aðstoð Rannsóknasjóðs Vegagerðarinnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Niðurstaða rannsóknarverkefnisins um áhrif 37. gr. náttúruverndarlaga á framkvæmdir er í megindráttum sú að greinin hefur lítil áhrif. Ástæður fyrir því geta legið í orðalagi lagagreinarinnar og skorti á skilgreiningum og leiðbeiningum. Einnig getur ástæðan legið í því að lítil áhersla er lögð á landslagsvernd hér á landi í samanburði við t.d. Skotland og önnur ríki […].“

Í rannsókninni kemur enn fremur í ljós að 37. gr. náttúruverndarlaganna hefur ekki áhrif á ákvörðun Skipulagsstofnunar um það hvort framkvæmdir skuli matsskyldar.

Í lokin segir, með leyfi forseta:

„Það er mat skýrsluhöfunda á grundvelli niðurstöðu þessarar rannsóknar að endurskoða þurfi 37. gr. náttúruverndarlaga í heild sinni.“

Það var gert. Það var gert í þeim lögum sem eiga að taka gildi í apríl. Þrátt fyrir þá gagnrýni sem ég rakti hér áðan sem laut að stærðarmörkum votlendis og orðalagi um brýna hagsmuni þar sem náttúran (Forseti hringir.) er vissulega látin njóta vafans tel ég það ekki hægt, (Forseti hringir.) með þessi gögn í höndunum, að bakka aftur í óviðunandi lagaumhverfi.