143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:04]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir áhyggjur hv. þingmanns af því hversu hefur skort á umræðu af hálfu stjórnarmeirihlutans í þessu mikilvæga máli. Ekki síst vegna þess að leitin að rökstuðningnum eða tilefninu hefur ekki skilað miklum árangri fyrir vikið.

Í framsöguræðu hæstv. ráðherra og í greinargerð með þessu litla frumvarpi eru tínd til nokkur atriði, nefndar eru orðskýringar, og það er ekki mikill þungi, ekki í samræmi við það hversu þungt það er í raun að taka svona lagabálk og henda honum eða taka svona kirfilega til hliðar.

Ég hef með því að skoða og fara í gegnum þær athugasemdir sem upp komu í meðferð málsins alveg frá hvítbókarumræðunni og síðan í gegnum þingið staldrað kannski helst við það að hjartað í lögunum, sem er í raun og veru varúðarreglan og er í raun ákvæðið um sérstaka vernd þar sem náttúran fær loksins að njóta vafans, öll hin ákvæði laganna eru svona stef við þann hjartslátt, ég hneigist til þeirrar tilfinningar að þar sé í rauninni rökin að finna. Það að setja loksins í lög eindregna varúðarreglu og afgerandi grein um sérstaka vernd sé þar með þeim aðilum sem gerðu athugasemdir við það, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og þeirra afla sem helst hafa hagsmuni af því að ganga á náttúruna hverju sinni — mig langar að heyra hvort hv. þingmaður deilir þeirri tilfinningu með mér (Forseti hringir.) eftir þessa yfirferð.