143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:09]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp í seinni ræðu um frumvarp hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um brottfall laga um náttúruvernd, nr. 60/2013. Mig langar við það tækifæri að reifa dálítið stöðu umræðunnar af því að eins og hefur komið fram verðum við að reiða okkur á framsögu hæstv. ráðherra og greinargerð og athugasemd við lagafrumvarpið að því er varðar afstöðu stjórnarmeirihlutans. Einhverjir hafa komið í andsvör, hv. þm. og formaður umhverfis- og samgöngunefndar, Höskuldur Þórhallsson, þar á meðal og hv. þm. Birgir Ármannsson jafnframt og nú sé ég að hann er kominn á mælendaskrá vonum seinna, en það er gott, og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson einnig. Það er orðið nokkuð framorðið að því er varðar þessa umræðu þannig að gott hefði verið að geta tekið umræðuna fyrr og heyrt þeirra afstöðu og sérstaklega hvað varðar það sem mig langar til þess að fara aðeins yfir.

Það sem mér hefur fundist koma fram hjá mjög mörgum þeirra sem skipa stjórnarandstöðuflokkana er að vilji sé til þess að eiga samráð og samstarf um að skoða það sem út af kann að standa að því er varðar þessi lög. Sumt af því er nefnt í greinargerð hæstv. ráðherra og líka í framsögu hans og eru mál sem eru sum hver mjög einföld og mjög einfalt að skoða og fara yfir og hæstv. ráðherra hefur meira að segja staldrað við í framsögu sinni eða í andsvörum til að byrja með, eins og skilgreiningar á þéttbýli og ræktarlandi o.s.frv. Það er tæpast tilefni til þess að kasta svo umfangsmiklum lagabálki fyrir róða að menn séu eitthvað tvístígandi um stöku skilgreiningar. Þéttbýlisskilgreiningin er fyrir það fyrsta í samræmi við vegalög og það voru uppi vangaveltur um hvort hún ætti að vera í samræmi við vegalög eða skipulagslög en niðurstaðan varð þessi. Varðandi skilgreiningu á ræktarlandi var það fært til betri vegar í samræmi við Bændasamtökin á sínum tíma.

Ég vil segja að því er varðar skipulagsvald sveitarfélaganna, um áhyggjur varðandi tiltekna kafla þar, að mér finnst þetta allt saman vera umfjöllunarefni sem hægt er að setjast yfir. Ég vil gera þinginu og hæstv. ráðherra grein fyrir því fyrir okkar hönd í þingflokki Vinstri grænna að við viljum leggja okkar af mörkum til að sú sátt megi nást. Ef það er svo, eins og fram kemur í orðum hæstv. ráðherra, að markmiðið sé að ná sátt og jafnvægi í málinu vænti ég þess að hann slái ekki á þá sáttarhönd ef viljinn stendur til þess í raun að ná einhverju jafnvægi í málinu. Það er einfaldlega ekki skynsamlegt að setja allt málið á byrjunarreit með því að ógilda lögin.

Ég nefni það sem valkost eða hugmynd í þessu öllu saman ef sett yrði af stað eitthvert slíkt verklag að það væri hluti af endurskoðunarferlinu að skoða gildistímann, frekar að skoða gildistímann en að fara þessa afdráttarlausu leið. Ég vil í fullri vinsemd benda hæstv. ráðherra á að það er gríðarlega þungur og langur ferill fram undan ef maður kýs að fara á byrjunarreit með málið. Ég hef miklar efasemdir um að það sé skynsamlegt, ekki síst vegna þess sem hefur verið boðað og kom fram þegar ríkisstjórnin settist hér að völdum, að umhverfisráðuneyti yrði breytt. Við vitum ekki hvernig því verður breytt, hvenær því verður breytt og hver komi síðan til með að gegna embættinu, það er líka óljóst. En slík lykillöggjöf sem hér er undir, það er ekki ráðlegt að setja svo þunga löggjöf í fullkomið uppnám (Forseti hringir.) þegar staðan er til viðbótar þannig að því er varðar mönnun málaflokksins og framtíðarsýn í (Forseti hringir.) þróun ráðuneytisins.