143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég hef fylgst nokkuð með umræðum um afturköllun laga nr. 60/2013, 167. mál. Þar hefur örlað á málefnalegum innleggjum en að sumu leyti hefur umræðan verið vanstillt og á tímum illskiljanleg. Hún hefur líka verið nokkuð á sömu lund. Menn þráspyrja eftir tilgangi hæstv. ráðherrans með því að afturkalla lög nr. 60/2013. Ég verð að spyrja, herra forseti: Hlustuðu hv. þingmenn ekki á framsögu ráðherrans? Þar komu fram rök hans fyrir þeirri ákvörðun að afturkalla lögin nr. 60/2013 og þar er helst að nefna þrennt eða fernt.

Í fyrsta lagi vegna óánægju sveitarfélaga, landeigenda, ferðafélaga og fleiri aðila með þessa lagasetningu. Í öðru lagi kostnað við gildistöku laganna, sem metinn er rúmar 100 millj. kr. og kemur niður á rekstri ríkisins og sveitarfélaganna. Í þriðja lagi óskýr verkaskipting milli stofnana. Allar þessar ástæður eru ærin tilefni til endurskoðunar laganna nr. 60/2013. Samt spyrja menn hér í ofvæni um rökin, flest ágætlega skynugt fólk sem situr í þessum sal. Hvað er svona óskiljanlegt?

Herra forseti. Í umræðunni hefur ríkt nokkur vanstilling. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, sem því miður er ekki hér við þessa umræðu, notaði orðið „lygi“ í ræðu í gær, ekki einu sinni heldur tvisvar. Sá sem hér stendur og sat undir þessu í forsetastóli í gær biðst velvirðingar á að hafa ekki gert formlega athugasemd við þann málflutning og heitir því að sinna forsetaskyldum betur næst þegar slíkt heyrist úr ræðustól Alþingis. Vanstilling þingmannsins virðist einkum eiga rót í afhroði flokks hennar í nýloknum kosningum þar sem stefnu flokks hennar var hafnað rækilega. En eins og krakkarnir segja, með leyfi forseta: „Get over it.“(Gripið fram í: Íslenska er málið.)

Vanstilling hv. þingmanns beinist ekki síst að því að núverandi meiri hluti tekur lagabálkinn upp svo nýsamþykktan. En þessi lög voru hömruð í gegnum þingið í vor í andstöðu þáverandi minni hluta. Bjóst hv. þingmaður við því að við svo búið yrði látið standa eftir kosningar þegar þeir flokkar fengu brautargengi, m.a. á grundvelli andstöðu sinnar við þetta mál?

Hæstv. forseti. Eitt atriði í viðbót, hvimleitt. Það er orðaleppurinn um hverra hagsmuni ríkisstjórnin standi vörð í þessu máli. Í stuttu máli stendur ríkisstjórnin vörð um náttúru og náttúrugæði í þessu máli. Í öðru lagi stendur ríkisstjórnin vörð um hagsmuni þeirra sem ekki var á hlustað við afgreiðslu frumvarpsins á sínum tíma, svo sem sveitarfélaga, landeigenda, ferðafélaga og fleiri. Ef ég skríð ofan í þennan sama skurð get ég spurt: Hverra hagsmuna gekk fyrrverandi ríkisstjórn í þessu máli? Var það Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands eða einhverjir aðrir, með mikilli og djúpri virðingu fyrir þeim aðilum öllum? Áttu þeir aðilar ríkari rétt, eru fyrrgreind samtök rétthærri að mati minni hlutans en þeir sem ég tilgreindi hér áður, sveitarfélög og fleiri?

Mér virðist þessi umræða einkum ætluð fjölmiðlum, en þeim virðist fyrirmunað að segja hlutlægt frá nokkrum sköpuðum hlut sem hér er sagt og gert á hinu háa Alþingi og hefur reynst stjórnarandstöðunni ágætlega áður. Ég vil minna á umræðuna um veiðigjöldin í sumar þar sem þingmenn minni hlutans gengu hér um og fóru með stórútgerðarþuluna aftur og aftur þrátt fyrir að ný ríkisstjórn hækkaði veiðigjöldin á þær sömu stórútgerðir í andstöðu við fulltrúa stjórnarandstöðunnar. En ruglið um lækkun veiðigjalda stórútgerða gengur enn aftur í fjölmiðlum, annaðhvort af skorti á hlutlægni eða það sem verra væri, skorti á grundvallarþekkingu fjölmiðlunga og lágmarksskilningi á fréttamati.

Herra forseti. Mig langar í sambandi við óánægju sveitarfélaganna að vitna nokkuð til ræðu ungs sveitarstjórnarmanns og hv. þingmanns Margrétar Gauju Magnúsdóttur sem notaði lunga ræðutíma síns í gær í það að tala sveitarfélögin niður. Það mun ábyggilega sópa að henni fylgi í komandi sveitarstjórnarkosningum. Þessi hv. þingmaður skildi ekkert í þessu veseni á sveitarfélögunum út af 50 millj. kr. kostnaði hjá þeim öllum samtals vegna laganna. Nú má virða þessum unga hv. þingmanni það til vorkunnar að hún er sveitarstjórnarmaður í fjölmennu sveitarfélagi sem einnig er reyndar eitt það skuldsettasta á landinu. Það hefur þá alla vega lánstraust og hefur eflaust komið sér upp nægum mannskap til að uppfylla skyldur sveitarfélagsins varðandi vernd náttúrufyrirbæra, eftirlit og rannsóknir með þeim eins og áskilið er í lögunum. En fjölmörg sveitarfélög, einkum fámenn og víðfeðm, ráða illa við kostnaðaraukann sem hlýst af nefndaskipan og fyrrgreindu eftirliti og rannsóknum. Í raun og veru er þetta fyrirkomulag þriðja leiðin, þriðja apparatið sem kemur að slíkum rannsóknum og eftirliti.

Þegar eru starfandi í landinu Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofurnar sem eru í eigu sveitarfélaga og kostnaður þeirra er greiddur að stóru leyti af fjárheimildum í fjárlögum, en Náttúrufræðistofnun Íslands hefur þá skyldu að vakta náttúru Íslands. Nær hefði verið að skilgreina verkefni þessara fyrrgreindu stofnana betur, auka samvinnu þeirra og hætta tvíverknaði sem nú er þríverknaður. Þetta er vond stjórnsýsla og einn þáttur í því að nauðsynlegt er að taka þessi lög upp. Ég treysti því að við meðferð málsins verði tekið til höndum um að hámarka nýtingu þeirra fjármuna sem þarna liggja undir og um leið að bæta verklag og stjórnsýslu.

Eins og allir sjá er ég ungur þingmaður og sat því sem aðrir slíkir undir sjálfbirgingslegum köpuryrðum í umræðunum í gær þar sem sagði eitthvað á þá leið að ungir stjórnarþingmenn hefðu afgreitt mál þetta í gegnum þingflokka eins og stimpilpúðar. Voru ungir þingmenn hvattir til að reka af sér þetta slyðruorð og mér er það ljúft. Hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir hafði sig mjög í frammi í þessari umræðu. Nú veit ég ekki hvað þingmaðurinn hefur fyrir sér í þessu efni annað en kannski sjálfsævisögulega reynslu, að þessar skoðanir byggist á reynslu hennar úr eigin þingflokki. En ég get fullvissað hv. þingmann um að hæstv. ráðherra misnotaði ekki æsku mína eða annarra nýliða við afgreiðslu þessa máls eða nokkurra annarra mála í þingflokknum. Þess utan hefur hv. þingmaður, sá sem hér stendur, ágæta yfirsýn yfir ný náttúruverndarlög, nr. 60/2013, hafandi unnið í umhverfis- og auðlindaráðuneyti allan þann tíma sem tilurð og undirbúningur frumvarpsins er síðan varð að lögum stóð og tel mig fullfæran um að taka upplýsta ákvörðun í málinu.

Sá sem hér stendur tók t.d. þátt í greiningu á kostnaði á gildistöku laganna og getur viðurkennt ákveðinn ótta af því að þær rúmu 100 milljónir sem eru nefndar sem kostnaðarauki dugi ekki til þess að framfylgja lögunum. Það er því alveg óhætt fyrir hv. þingmann að draga ögn úr sjálfbirgingnum og kanna til hlítar þá meintu annmarka sem hún telur unga stjórnarþingmenn búa yfir, í stað þess að hreykja sér hér óverðskuldað á þeirra kostnað, þó að hún sé hokin af þingreynslu.

Mig langar einnig að minnast á þá slæmu stjórnsýslu sem boðuð var í lögunum og varðar verkefni og verkaskiptingu tveggja stærstu stofnana landsins er fara með málefni náttúruverndar, þ.e. Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun. Með þeim breytingum sem eru gerðar með lögunum virðist mér að verkaskipting stofnananna verði enn óskýrari en nú og enn óskilvirkari og sé alls ekki fallin til þess að auka eða bæta samvinnu stofnananna heldur þvert á móti. Það er samt ærin ástæða til að bæta samskipti og samvinnu þessara stofnana.

Herra forseti. Eitt fegursta orð íslenskrar tungu er orðið hugsjón. Ég get ekki varist þeirri tilfinningu að ýmsir fulltrúar minni hlutans hér inni telji sig eiga einkarétt á því orði, að það sé löggilt vörumerki, en í stað Coca-Cola merkisins sé þar að finna VG-merkið eða litla kratarós. En svo er ekki, því fer fjarri, herra forseti. Við framsóknarmenn erum ekki fólk sem fer um á allt of stórum skóm með járnkarl um öxl. Við framsóknarmenn erum ekki síðri náttúruverndarsinnar en margir þeir aðrir sem hér eru inni. Við stofnuðum enda umhverfisráðuneytið á sínum tíma, stóðum að stofnun þess. Og það má ekki gleyma því heldur að hið fagra orð hugsjón hefur nú í nær heila öld gengið hönd í hönd með öðru af fegurstu orðum íslenskunnar, en það orð er framsókn.

Ég hef hér að framan reifað nokkur atriði sem varða afturköllun laga nr. 60/2013. Ég deili ekki áhyggjum sem komu fram í máli hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur áðan um að allri vinnu við lög sem eiga að taka gildi nú í apríl verði kastað fyrir róða. Ég hef þá trú að sú vinna sem þegar hefur farið fram nýtist við endurskoðun lagabálksins í heild og ég er næsta viss um að hún verður nýtt. Það hefur komið fram í máli hæstv. ráðherra og hv. formanns umhverfis- og auðlindanefndar ríkur vilji til samráðs þegar að því kemur að ráðast í nýja lagagerð. Ég tek heils hugar undir þær óskir og hvet alþingismenn til að taka þátt í þeirri vinnu sem fram undan er við nýja lagagerð. Okkur hlýtur öllum að vera efst í huga að sú vinna sem hér er unnin sé fagleg og vel af hendi leyst. Við hljótum að leggja okkur öll fram um að í þessu máli náist lending sem allir geti haft sóma af, sem við náum saman um, þannig að nauðsynleg og dýrmæt sátt náist um þennan mikilvæga málaflokk.