143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:27]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir þetta andsvar og hef í sjálfu sér ekki stórar áhyggjur af fylgi annarra flokka en Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, hef svo sem engar áhyggjur af því heldur. Það er langt til sveitarstjórnarkosninga og mörg lönd verða unnin áður en þær renna upp.

Út af spurningu hv. þingmanns um hvort gæfulegra hefði verið að leita eftir frestun en að afturkalla lögin í heild — það kann svo sem vel að vera, hv. þingmaður, en þessi ákvörðun var ekki tekin í flýti. Það var farið vel fyrir það mál hvernig framsóknarmenn hygðust vinna að því og niðurstaðan varð sú að í stað þess að fara að bæta í einstaka kafla eða breyta þeim lögum sem áttu að taka gildi í apríl 2014 þá væri einfaldlega hreinlegra að afturkalla þau í heild og hefja vinnu við gerð nýs frumvarps. Ég vænti þess að sú vinna hefjist að þessu máli afgreiddu.

Ég segi aftur: Jú, jú, það kann vel að vera að það fari illa í menn og þeir telji lítið samráð felast í því að gera þetta með þessum hætti. Ég endurtek það sem bæði hæstv. ráðherra og formaður umhverfis- og samgöngunefndar hafa sagt: Þeir vilji ná almennri sátt og hafa mikið samráð um afgreiðslu þessa máls.