143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:32]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefnir að framsókn sé fallegt orð og allt í góðu með það en mér finnst ekki vera mikil framsókn í þessu afturkalli hæstv. ráðherra, ég verð að segja það. Hvernig á að ná sátt? Nú hefur hv. þingmaður látið þess getið að hann hafi verið að vinna í stjórnsýslunni og mig langar að heyra skoðun hans á því hvort hann telji það vera góð vinnubrögð, með mál sem hafa verið í vinnslu mjög lengi í stjórnsýslunni, fjöldi manns komið að og farið fram mikil vinna, að þegar stjórnarskipti verða sé meginreglan að rífa upp með rótum frekar en að reyna að skoða málið og sníða af því hugsanlega agnúa. Telur hann það vera vönduð vinnubrögð gagnvart stjórnsýslunni og yfir höfuð þegar stór og mikil mál koma upp eins og þetta?

Ég vil líka spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki rétt að byrjað verði á því að reyna að ná sátt í nefndinni. Það kom fram í máli hv. þm. Birgis Ármannssonar áðan að hugsunin hafi verið sú þegar samkomulag var gert í vor að menn nýttu þennan tíma fram að 1. apríl á næsta ári einmitt til að skoða þetta með nýjum meiri hluta sem yrði við völd? Hvort hann telji ekki eðlilegra að viðhafa þannig vinnubrögð frekar en að rjúka í að afturkalla heilan lagabálk.