143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:34]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafney Magnúsdóttur þetta andsvar. Það er þannig að þegar menn ætla fram á við þurfa þeir stundum að stíga skref til baka til að ná svo fleiri skrefum fram á við. Það er akkúrat það sem vakir fyrir mönnum í þessu máli. Til að sníða agnúa af því lagafrumvarpi, þeim lögum sem áttu að taka gildi 1. apríl 2014, þótti mönnum vænlegra að afturkalla lagabálkinn í heild en fara ekki að eiga við hann með einhverjum bútasaum.

Ég ætla aftur að vitna í orð hv. þm. Höskuldar Þórs Þórhallssonar, hv. formanns umhverfis- og samgöngunefndar, sem lýsti því yfir í gær að hann mundi leita eftir ríku samráði og samkomulagi í nefndinni. Ég efast ekki um að sá mæti drengur muni gera það og nefndin vinni einhuga að málinu. Það hefur hins vegar komið fram í máli hæstv. ráðherra að vinna við nýja lagasmíð hefjist nú þegar, þegar búið er að afgreiða þetta mál, og að hægt verði að kynna nýtt lagafrumvarp mjög fljótlega. Við erum því ekki að tala um endurtekningu á öllu því ferli sem átti sér stað við framlagningu og samningu laganna sem áttu að taka gildi nú í apríl 2014, sem tók einhver fjögur ár. Við erum ekki að tala um allan þann tíma. Ég ítreka að ég efast ekkert um að það verður góð umræða og sátt í nefndinni.