143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:38]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir andsvarið. Að rífa upp með rótum — ég lít ekki svo á að það sé út af fyrir sig æskilegt að lagabálkar séu teknir upp í sífellu þegar ný ríkisstjórn kemur til valda. Í þessu tilfelli hefði þetta hins vegar ekki átt að koma nokkrum manni á óvart vegna þess, eins og fram kom í ræðu minni áðan, að málið var keyrt hér í gegn á síðustu metrunum í mikilli andstöðu. Það var mikill ágreiningur innan þings þannig að það átti ekki að koma neinum á óvart að afturkalla ætti þessa lagasetningu.

Ég ítreka líka að á ákveðnum tímapunkti, þrátt fyrir alla þá miklu vinnu sem liggur að baki lögunum, var málinu lokað án þess að fullkomin sátt væri um það. Það er þessi sátt sem menn stefna á að náist.