143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:39]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gat nú ekki annað en kvatt mér hljóðs og farið í andsvar við hv. þingmann þótt ekki væri nema til að ræða aðeins það sem hann bar upp á mig. Og talandi um sjálfbirgingshátt þá talaði þingmaðurinn með hæðni um að ég væri hokin af reynslu þrátt fyrir að vita að ég er líka nýr þingmaður þó að ég hafi verið varaþingmaður hér um tíma.

Það sem ég var að óska eftir í gær var að það nýja fólk sem kvatt hefur sér hljóðs hér og verið duglegt við að brýna sína forustu til góðra verka, léti í sér heyra núna um þetta stóra og mikilvæga mál. Af hverju ekki?

Að málin fari í gegnum flokkinn óáreitt hefur ekkert með reynslu mína í þingflokki Vinstri grænna að gera, ég get upplýst þingmanninn um það. En það vekur óneitanlega athygli að afar fáir af hinum nýju þingmönnum kjósi að taka þátt í umræðu um þetta mikilvæga mál, það vekur athygli. Ég held að það sé ekkert óeðlilegt að spyrja um hvers vegna það sé.

Þingmaðurinn fór nú svolítið vítt um í ræðu sinni. Ég velti því fyrir mér hvort það sem komið hefur fram í umræðunni fram til þessa af hálfu stjórnarandstöðunnar hafi þingmanninum kannski ekki fundist ýkja merkilegt — ég túlkaði a.m.k. orð hans þannig þegar hann spurði hvort við hefðum ekki heyrt hvað ráðherrann var að segja og hvert verið væri að fara. Varðandi orðið hugsjón held ég að við sem höfum rætt málin hvað mest tölum um hugsjón og að við séum hugsjónafólk fyrir verndun náttúrunnar og talsmenn hennar. Mig langar að spyrja hv. þingmann á hverju hann byggir þá skoðun sína að hægt verði að ná meiri sátt. Hvað er mikilvægt? Við hverja (Forseti hringir.) er mikilvægast að ná sátt?