143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:43]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var akkúrat það sem hv. þingmaður kom inn á, menn greinir á í hvaða átt á að fara, um það snýst nefnilega málið. Þegar hæstv. ráðherra sagði hér á hliðarlínunni um leið og ég gekk í sæti mitt áðan að það ætti að ná sátt við alla jafnt, bara er það eðlileg spurning í framhaldinu hvort hv. þingmaður telur það mögulegt. Mér er til efs að það verði hægt. Það væri mjög æskilegt ef þannig væri um flest mál en ég held að það sé ekki þannig.

Mig langar að öðru leyti að segja, af því að hv. þingmaður vitnaði til sveitarstjórnarkonu sem talaði hér í gær, að eftirfarandi kemur fram á bls. 3 í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Áður en frumvarpið varð að lögum færði Alþingi ákvæði um náttúruverndarnefndir til þess horfs sem það var samkvæmt gildandi lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, og er því væntur kostnaðarauki umræddra ákvæða ekki lengur fyrir hendi.“

Skilur þingmaðurinn það ekki eins og ég að þessi 20–50 millj. kr. kostnaðarauki sem gert var ráð fyrir, (Forseti hringir.) sé ekki lengur til staðar fyrir sveitarfélögin?