143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í stuttu máli mundi ég segja að mengunarbótareglan sem slík eigi ekki að þurfa að valda ágreiningi. Varúðarreglan er þegar inni í alþjóðlegum skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist. Á hinn bóginn getur skipt máli hvernig hún er útfærð. Það er hægt að túlka varúðarregluna svo að hún verði í raun og veru hálfgerður eða allsherjarhemill á allt sem gera skal en það er spurning um framsetningu og túlkun þar, sem skiptir máli.

Hvað varðar hins vegar þetta konkret atriði sem hv. þingmaður nefndi í 57. gr. laganna, sem áður var 37. gr., ákvæðið um sérstaka vernd, kom skýrt fram af minni hálfu að ég teldi að þar væri gengið of langt í þeim lögum sem samþykkt voru síðasta vor, bæði hvað varðar útvíkkun þeirra svæða sem njóta skyldu sérstakrar verndar, þar sem um verulega breytingu var að ræða, og eins orðaði ég líka áhyggjur af því að verið væri að setja, hvað eigum við að segja, of þröngar skorður varðandi nýtingu svæða sem féllu undir þessa vernd. Þetta voru sjónarmið sem komu skýrt fram af minni hálfu á síðasta þingi.