143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það skyldu nú ekki eiga eftir að verða örlög þeirra sem nú segjast ætla að taka að sér að ná mikilli sátt um þetta mál að finna út að það er hægara sagt en gert. Það er auðvelt að elta uppi alla óánægju og ágreining sem rís þegar verið er að lenda stórum og flóknum málum af þessu tagi. Þetta snýst vissulega og réttilega, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson kom inn á, oft um að finna jafnvægi og „settla“ mál en það er hægara sagt en gert. Íhaldssemin er oft mikil þegar komast á áfram með framsækna löggjöf af þessu tagi.

Varðandi andstöðuupptalningu þá hina miklu sem hér kom fram í ræðu ráðherrans — nei, ræðu hv. þingmanns, tilvonandi ráðherra hugsanlega einhvern tímann síðar á öldinni, þá bið ég hv. þingmann aðeins að gæta sín. Er ekki fullmikið í lagt að segja að allir þeir aðilar sem hv. þingmaður taldi upp hafi verið algjörlega á móti málinu? Það vill svo til að ég var í sambandi við suma af þessum aðilum sjálfur og það kom í ljós í fleiri en einu og fleiri en tveimur tilvikum að það var kannski eitt einasta efnislegt atriði sem eftir stóð sem sumir sögðu: Ja, ég er ekki viss um að ég sé sáttur við þetta, þetta er kannski ekki nógu vel úr garði gert. Aðilar sem voru tíundaðir sem andstæðingar málsins sögðust í raun og veru vera ánægðir með þessa nýju og metnaðarfullu löggjöf að öllu leyti nema einu eða tveimur atriðum.

Dæmi um vegamálin og aksturinn. Þegar maður var búinn að fara yfir það og búið var að eyða þeim misskilningi að það ætti að fara að hefta ferðafrelsi fatlaðra eða loka akstursleiðum sem væru raunverulegir vegir í stórum stíl, stóð eftir ágreiningur um eitt atriði við einn af þessum aðilum sem ég ræddi við. Það var hvort leyfa ætti akstur í gegnum Vonarskarð. Það er alveg eðlilegt að menn geti verið ósammála um það. Ég skil að vísu ekki að nokkrum manni skuli detta það í hug að ætla að fara að leyfa mönnum að aka þar í gegn, en það er bara efnislegt. (Forseti hringir.) Þannig var þetta í sumum tilvikum. Ég vildi því gjarnan að hv. þingmaður kæmi aðeins betur að þessu, ég veit að hann vill ekki fara offari.