143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það voru mismunandi atriði sem þeir aðilar sem ég nefndi og fleiri til gerðu athugasemdir við í frumvarpinu þegar það var til umfjöllunar á síðasta tímabili. Það voru mjög ólík atriði sem segjum t.d. landeigendur og bændur voru að hugsa um, skógarræktendur eða Samorka, svo að maður nefni nokkra af handahófi. Menn gerðu athugasemdir við ólík atriði. Mismunandi hópar ferðafólks voru með mismunandi atriði í huga, það er alveg rétt. Í mörgum tilvikum var athyglin hjá einstökum samtökum eða einstökum hópum fyrst og fremst á það sem þeir töldu að sneri helst að sínum hagsmunum eða sínu áhugamáli, eðlilega.

Þess vegna var okkar nálgun síðasta vetur sú að það væri þess virði að reyna að leita leiða til að finna betra jafnvægi, ná meiri sátt um ólíka þætti í þessu efni. Í sumum tilvikum greinir menn einfaldlega á í grundvallaratriðum. Ég held að það sé alveg óhætt að segja að ákveðinn grundvallarágreiningur sé t.d. um 37. gr. sem nú á að verða 57. gr., um þá miklu breytingu sem lögð er til varðandi hina sérstöku vernd. Ég held að það sé töluvert mikill ágreiningur um það. Í öðrum tilvikum er spurningin kannski frekar um tæknilega útfærslu. Þó að ég viðurkenni það sem hv. þingmaður segir, að það kann að vera auðveldara um að tala en í að komast að ná víðtækri sátt um þetta mál, var það mín tilfinning mjög eindregið eftir málsmeðferð í þinginu síðasta vetur að það væri hægt að gera betur en þá var niðurstaðan.