143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessari spurningu er ekki hægt að svara öðruvísi en svo að þegar reynt er að ná sátt hljóta allir að slá af, það hlýtur að vera. Það sem fram kom í ræðu minni hér áðan var að ég teldi að þrátt fyrir að vissulega væri erfitt að ná sátt um ákveðna þætti og að í ákveðnum tilvikum yrði sennilega ekki hægt að ná niðurstöðu sem allir væru sáttir við, væri þó hægt að ganga lengra á sáttaveginum, getum við sagt, en gert var síðasta vor. Ég er sannfærður um, þó að ég geti auðvitað ekki frekar en nokkur annar maður sagt til um hver niðurstaðan verður af því ferli, að það er þess virði að reyna.