143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:15]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég er afar ánægður með þessa umræðu sem orðið hefur um þetta mál og ég tel að hún hafi verið mjög gagnleg. Það var til dæmis áhugavert að heyra Framsóknarflokkinn skjóta þeim skildi fyrir sig að hann hefði staðið að stofnun umhverfisráðuneytisins. Mikið rétt. Framsóknarflokkurinn var í þeirri ágætu ríkisstjórn sem ásamt með m.a. þeim sem hér stendur kom því á. En muna allir hvernig það gekk? Ég var í þessu húsi þegar það var linnulaust málþóf, ekki síst hér uppi í henni efri deild sálugu, hinum megin við hurðina vikum saman, gegn því að koma á umhverfisráðuneyti á Íslandi. Það var núverandi og oft áður samstarfsaðili Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokkurinn, sem þá stóð í miklu málþófi. Lesið upp úr merkum bókum og margt fleira skemmtilegt.

Ég tel fyrst og fremst að umræðan hafi verið gagnleg vegna þess að hér hafa þrátt fyrir allt mjög margir slegið þann tón að engu að síður, þrátt fyrir tillögu ráðherrans, sé einnar messu virði að fara yfir málið í heild og skoða hvort aðrar leiðir eru færar til að ná meiri samstöðu um málsmeðferðina innan þings og vonandi utan líka. Ég leyfi mér hiklaust að túlka anda umræðnanna þannig að flestir sem tekið hafa þátt í henni hafi verið jákvæðir í garð þess að umhverfis- og samgöngunefnd sem nú tekur við keflinu fari vel yfir það.

Þá eru auðvitað nokkrir kostir í stöðunni. Í fyrsta lagi sá kostur að lögin taki einfaldlega gildi á tilsettum tíma en hugsanlega með einhverjum breytingum. Mér fannst athyglisvert í því sambandi sem hér var nefnt af einum hv. ræðumanni að skoða þær reglugerðarheimildir sem ráðherra hefur eftir atvikum til að útkljá mál á gráum svæðum. Í allmörgum tilvikum eru í lögunum heimildir fyrir ráðherra til að útfæra betur ákvæði þannig að hægt sé að ná betri sátt um þau. Þetta mætti skoða saman. Ef ráðuneytið er í jákvæðum gír og stofnanir ráðuneytisins gagnvart því er það hægt.

Það er í öðru lagi mögulegt að hluti laganna taki gildi, annaðhvort sem meginlögin eða sem viðbót við gildandi náttúruverndarlög. Hvoru tveggja er væntanlega ekki mjög flókið lagatæknilega séð að setja upp. Það hefði þann stóra kost t.d. hvað varðar grundvallarreglurnar að þá reyndi á það í þingsalnum hvort áfram sé meirihlutastuðningur við það á Íslandi að varúðarreglan sé í lögum. Er ekki lögmætt sjónarmið að við eigum heimtingu á að fá að vita það? Það var breiður stuðningur við það á síðasta kjörtímabili því að 38 þingmenn greiddu frumvarpinu atkvæði og stærstur hluti hinna sat hjá. Það var að minnsta kosti ekki mikil bein andstaða við það ef við túlkum það þannig. Eigum við þá ekki að láta á það reyna aftur frekar en að henda henni út úr lögum með þessari hráu aðferð?

Ef nefndin teldi sig þurfa meiri tíma gæti hún auðvitað lagt til við þingið og staðið fyrir því sjálf að biðja um einn, tvo mánuði í viðbót. Þó að manni væri það ekkert ljúft segi ég fyrir mig að frekar vildi maður það en að þetta færi allt saman í tætarann eins og menn hafa kallað það.

Langversti kosturinn finnst mér vera sá, og eiginlega sá sem komi ekki til greina, að henda þessu öllu saman því að það er afturför. Það er stórfelld afturför í umhverfislöggjöf á Íslandi ef ekkert af þessu fær að öðlast gildi. Það er mjög slæmt. Því fylgir að engin vinna fer af stað eða stöðvast þar sem hún er núna stödd. Nú hafa menn væntanlega verið að undirbúa sig undir þessa framkvæmd. Það hafa stofnanir undir hæstv. umhverfisráðherra verið að gera, ég veit það. Ég hef séð það á heimasíðum þeirra, í ársskýrslum þeirra og víðar. Menn hófust handa um að undirbúa sinn hlut í framkvæmd nýju náttúruverndarlaganna strax eftir að þau voru lögtekin í vetur sem leið og hafa verið að nota tímann í það. Það stoppast þá allt sem og gerð kortagrunnsins og það sem þar átti að vera.

Það er viss galli í stöðunni að málið er ekki vel reifað. Þau efnisatriði eru ekki listuð upp og skráð sem núverandi hæstv. ráðherra, ríkisstjórn eða meiri hluti vill taka sérstaklega til skoðunar. Nú þá það, úr því að sú vinna var ekki unnin af ráðherra fer umhverfis- og samgöngunefnd í það, byrjar á því að kortleggja það. Það skyldi nú ekki koma á daginn að þetta séu ekkert óskaplega mörg atriði. Fingur beggja handa (Forseti hringir.) duga til að telja þau upp. Þá er málið viðráðanlegra.