143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:20]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef hv. þingmaður á við „klárað“ í skilningnum að öðlast þegar gildi er svarið ljóst. Það var einfaldlega þannig að við bjuggum hér á síðasta kjörtímabili, einkum þegar á leið, við stjórnarandstöðu sem á sér ekki fordæmi í þingsögunni. Ég held hún hafi verið ef eitthvað er verri en stjórnarandstaða Sjálfstæðisflokksins gegn ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens, og ég hef nokkra yfirsýn yfir þetta. En það væri þá eina hliðstæðan sem kæmist eitthvað nálægt því að vera lík þeirri stjórnarandstöðu sem var hér á síðasta kjörtímabili.

Það var reyndar ekki stjórnarandstaða í hefðbundnum skilningi, það var skipulagt eyðileggingarstarf. Þetta þróaðist þannig, því miður, í einhverju mjög súru andrúmslofti hér sem þjóðin horfði upp á agndofa að stjórnarandstaðan lagði metnað sinn í að meira og minna eyðileggja öll þingstörfin. Það leiðir aftur til þess, eins og hér hefur orðið að aðhlátursefni, að núna sitja ráðherrarnir uppi með að endurflytja fullt af málum sem þeir drápu hér í stjórnarandstöðu af meinbægni einni saman, alls konar innleiðingarmál og eitthvert dót sem reynist núna embættisskylda ráðherranna að reyna að koma fram. Þeir endurflytja nú helling af málum frá fyrri ríkisstjórn sem þeir stöðvuðu og sum algerlega óbreytt vegna þess að innleiðingarfrumvörpum er ekki auðvelt að breyta mikið vegna þess að tilskipanirnar eru eins og þær eru.

Þetta er svarið. Varðandi það af hverju málið var ekki klárað að öðru leyti þá tel ég að það hafi verið mjög vel klárað. Umhverfis- og samgöngunefnd lagði gríðarlega vinnu í málið. Það sést til dæmis á yfir 50 breytingartillögum og því hvernig unnið var úr umsögnum og hvernig reynt var að mæta málefnalegum gagnrýnisatriðum sem fram komu þar. Ég tel því að málið hafi verið fullklárað efnislega eða mjög vel, en því miður leyfðu aðstæður í þinginu ekki að það öðlaðist fyrr gildi einfaldlega vegna þess að stjórnarandstaðan tók þingstörfin kverkataki í málþófi og það varð til þess að (Forseti hringir.) meiri hlutinn neyddist til þess að semja við hana um framgang ýmissa mála.