143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:35]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvort þessi París var einnar messu virði.

Í upphafi þessa andsvars langar mig til að vekja eftirtekt á því að ég flutti ræðu snemma í umræðunni sem að minnsta kosti miðað við mælikvarðana sem stjórnarandstaðan á síðasta kjörtímabili setti var giska málefnaleg. Ég varpaði fram til hæstv. ráðherra spurningum sem meðal annars lutu að því hvort hann treysti sér til að lýsa því yfir að þeirri vinnu sem hann ætlar að setja af stað og lýst er í greinargerð með frumvarpinu ætti yfir höfuð að vera lokið á þessu kjörtímabili. Hæstv. ráðherra svaraði því ekki.

Það sem skiptir auðvitað mestu máli er að þessi ríkisstjórn fór af stað með yfirlýsingar um sættir, um samvinnu, um samráð. Það sem hefur lýst af þessari umræðu síðustu tvo daga er í reynd eins konar tilboð til hæstv. ráðherra um að freista þess að ná samkomulagi. Í umræðunni hefur verið miklu meiri sáttatónn en var þegar hún geisaði undir lok síðasta kjörtímabils um þau lög sem eiga að taka gildi í apríl.

Mér sýnist ekki hægt að túlka ræðu hæstv. ráðherra öðruvísi en að hann sé að slá nokkuð kröftuglega á þá sáttarhönd sem að honum var rétt. Ég hef lýst því ærlega í þessari umræðu að í lögunum, sem hæstv. ráðherra vill að taki ekki gildi og vill fella brott, séu ákvæði sem eru þess eðlis og ég hef barist svo lengi fyrir að ég er til í að reyna að ná málamiðlun fyrir mína hönd og minna pólitísku vandamanna með því að slá verulega af ýmsu öðru. Ég er þeirrar skoðunar eftir að hafa slegist síðan 1993 um meginreglur umhverfisréttarins að það sé svo mikils virði að jafnvel sé hægt að kyngja einhverjum öðrum prinsippum. Því er hæstv. ráðherra að hafna. (Forseti hringir.) Honum er boðið upp á þetta og hann kýs ófrið þegar friður er í boði.