143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

164. mál
[19:09]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því nú að þetta frumvarp er komið fram og er auðvitað ljóst að það þyrfti að framlengja lög vegna þess að þau höfðu tímabundið gildi og voru tengd við byggðakortið sem hér kemur við sögu. Það er mjög mikilvægt og ég fagna því að hér er lagt til að lögin haldi gildi lítillega breytt fram til ársloka 2020. Þá kemst vonandi festa á í kerfinu. Við skulum ætla að það sé sæmilega valdað pólitískt úr því að það komst á í tíð fyrri ríkisstjórnar og þessi ríkisstjórn hyggst framlengja líf þess.

Þegar rætt er við fólk í hinum dreifðu byggðum og ekki síst þeim sem fjærst liggja valda- og viðskiptamiðstöð suðvesturhornsins heyrum við alltaf talað um hluti eins og flutningskostnað, kyndingarkostnað á köldum svæðum, lélegar samgöngur og bágt fjarskiptasamband.

Um flutningskostnaðinn hefur nú lengi verið mikið rætt. Það eru a.m.k. 10 ár síðan býsna sver loforð voru gefin um að nú yrði farið í að jafna hann. Ég man eftir kosningunum 2003 og þáverandi ráðherra málaflokksins, Valgerði Sverrisdóttur, sem nánast lofaði því á framboðsfundum að þetta væri alveg að koma því að hún væri með fína skýrslu í skrifborði sínu sem hún væri nýbúin að fá frá Byggðastofnun eða einhverjum háskólum og að tillögurnar væru eiginlega klárar. Þær voru í grófum dráttum þær sem urðu að lokum að veruleika, en það þurfti síðustu ríkisstjórn og mestu kreppu lýðveldistímans til þess að koma þessu í framkvæmd. Maður var búinn að tala um þetta í 10, 15 ár en ekkert hafði verið gert. Hvað hafði gerst á þeim tíma? Jú, flutningskostnaðurinn hafði stórhækkað. Eftir að Skipaútgerð ríkisins var lögð niður illu heilli og ákveðin þróun fór í gang í kjölfarið; mikil fákeppni komst á á þessum markaði o.s.frv., hefur það gerst, og það vita allir, að flutningskostnaðurinn hefur stórhækkað. Vissulega eru fyrir því ástæður eins og hærri olíukostnaður og fleira sem erfitt er að ráða við.

Þetta varð sem sagt loksins að veruleika og ég fagna því að það eigi að viðhalda því. Að mínu mati þarf að tryggja að fjárveitingarnar haldi raungildi sínu þannig að unnt sé að nýta heimildir laganna til fulls um þessa 20% og síðan 10% endurgreiðslu þannig að það má ekki standa á aurum í það, enda eru hér ekki stórar fjárhæðir á ferð ef það kostar eitthvað nálægt 200 milljónum plús/mínus að hjálpa aðeins til í flutningskostnaðinum að þessu leyti.

Ég held að það þurfi nú varla að ræða breytingarnar á frumvarpinu, þær eru sjálfsagðar. Ég átta mig ekki á því en það er auðvitað dapurt ef láðst hefur fyrir misgáning að hafa hið gagnmerka sveitarfélag Tjörneshrepp með í löggjöfinni, hið merka fríríki okkar, Tjörneshrepp, sem liggur inni í Norðurþingi, það er sjálfstætt sveitarfélag. Að sjálfsögðu á það að vera á sínum stað í byggðakortinu.

Varðandi fjármögnunina má vissulega nálgast þetta eins og hér er gert. Það er út af fyrir sig rétt. Það má bókfæra einskiptisávinning af því að fara úr fyrirframfjárheimildum yfir í að hafa það eftir á, en hugsunin var auðvitað sú að fjárheimildin væri til staðar á árinu sem flutningskostnaðurinn fellur til þannig að það var engin minnsta óvissa um að endurgreiðslan væri fjármögnuð. Það þarf auðvitað að treysta á það að vilji Alþingis standi til þess árið á eftir að skila nægilegri fjárveitingu til að niðurgreiða þegar áfallinn flutningskostnað ársins á undan ef þessi leið er farin. Það má þá a.m.k. ekki vera nein minnsta óvissa um að við slíkt verði staðið.

Ég segi bara eins og er að mér hefði liðið betur með hitt fyrirkomulagið. Þrengingarnar í ríkisbúskapnum eru nú væntanlega ekki meiri núna en þær voru 2012 og 2013 þegar við vorum að koma þessu inn á sínum tíma. Þá vildum við fara þessa leið. Við vildum sýna fjárveitinguna í fjárlögum ársins hvers flutningskostnað ætti síðan að endurgreiða til þess að það lægi alveg fyrir að sú endurgreiðsla, niðurgreiðsla væri fjármögnuð.

Auðvitað treystum við því þá bara að þetta haldi og er svo sem ekki ástæða til að ætla að pólitískur ágreiningur verði um það ef góð samstaða er um lögin og afgreiðslu frumvarpsins, að menn standi skil á fjárveitingunni.

Það er aðeins eitt atriði að lokum sem ég vil nefna við ráðherra, ekki til að gera mál úr því og það varðar ekki í sjálfu sér frumvarpið. Það er að kannski væri ástæða til þess að ráðherra settist með sínu liði aðeins niður með Byggðastofnun og færi yfir vissa þætti endurgreiðslureglnanna. Ég hef rekist á það í einum tveimur tilvikum að framleiðendum úti á landi finnst koma upp skrýtin staða þegar þeir fá endurgreiddan flutningskostnað fyrir hluta af framleiðsluvöru sinni en ekki allar. Vissulega er það t.d. í tilviki þegar um grænmeti er að ræða eða eitthvað slíkt, það er vöruflokkur sem væntanlega hefur ekki verið felldur undir reglurnar.

Ég var hjá ágætum framleiðanda sem framleiðir býsna breitt úrval af vörum, matvælum og unnum matvælum og hráefnum í matvæli og reyndar grænmeti. Niðurstaðan í hans tilviki er að það er einungis afar afmarkaður þáttur framleiðslunnar sem hann fær viðurkenndan til að fá endurgreiddan flutningskostnað á. Þetta er því ekki í öllum tilvikum sá stuðningur við framleiðslustarfsemi í fjarlægum landshlutum sem ég hafði eiginlega haldið að væri. Ég skal ekki fullyrða um það hvort auðvelt er að breyta þarna reglum, en ég held að það væri einnar messu virði að láta fara yfir þetta.

Ég trúi að menn hafi heyrt athugasemdir. Byggðastofnun hlýtur að kannast við að sumum hafi þótt reglurnar skrýtnar að þessu leyti, því að viðkomandi aðilar hafa verið að reyna að ná leiðréttingu sinna mála með samskiptum við Byggðastofnun, kannski ráðuneyti líka, en rekið sig á að einhver flokkun á framleiðslunni og vörunum gerir það að verkum að sumt er viðurkennt til endurgreiðslu flutningskostnaðar og annað ekki. Það er ekki ólíklegt, líka í ljósi reynslunnar, að ástæða sé til að fara aðeins yfir þessar reglur.