143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[20:21]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Mig langar að velta upp nokkrum sjónarmiðum um það frumvarp sem hæstv. ráðherra mælir hér fyrir sem er í raun og veru nýr heildarlagabálkur um Orkuveitu Reykjavíkur. Mig langar kannski að biðja hæstv. ráðherra að bregðast við í lokaræðu sinni þar sem það verða greinilega ekki miklar umræður hér um þetta mál.

Ég geri ráð fyrir því að hv. þingnefnd skoði málið ítarlega og þau sjónarmið sem uppi eru, en ég vil biðja hæstv. ráðherra fyrir það fyrsta að reifa með frekari rökum en hún gerði í framsögu sinni hvaða forsendur liggja því til grundvallar að þessi leið sé farin, þ.e. að setja saman alveg nýjan lagabálk um Orkuveitu Reykjavíkur. Rætt er um að verið sé að einfalda tiltekna þætti án þess að gerð sé bein grein fyrir því í greinargerð og maður veltir því kannski fyrst og fremst fyrir sér hvaðan frumkvæðið kemur um þær einfaldanir og hvaða sjónarmið verið er að koma til móts við. Svo virðist sem verið sé að þrengja heimildir félagsins til að mynda varðandi fjármögnun.

Svo spyr ég líka um það hver staða dótturfélaga sé eftir breytinguna, hvort staða skylduverkefna Orkuveitu Reykjavíkur sé breytt. Það er margt hér í frumvarpinu sem kallar á ákveðnar spurningar og vangaveltur. Það kann að vera að þessu sé öllu vel fyrir komið. En vegna þess að tilefnið er fyrst og fremst þessi uppskipting en farin er leið heildarendurskoðunar kallar það kannski á aðeins dýpri umfjöllun af hendi ráðherra.

Ég spyr um þau sjónarmið sem snúa að ábyrgð eiganda, þ.e. að hámark þeirra opinberu ábyrgða sem hægt sé að leggja upp með sé 80%. Ég spyr hvort verið sé að gera ráð fyrir einkafjármögnun að einhverju leyti og hvort verið sé að breyta inntaki sameignar fyrirtækisins. Orkuveita Reykjavíkur er náttúrlega mjög dýrmætt fyrirtæki og hefur lotið sérstökum lögum. Það skiptir fyrirtækið gríðarlega miklu máli hvort inntaki þess sem slíks sé breytt eða hvort það sé hið sama.

Mig langar líka til að spyrja sérstaklega um samráð við eigendur og hvernig því hefur verið háttað, bæði væntanlega í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og síðan í hópi eigendanna beinlínis.

Við höfum auðvitað verið þeirrar skoðunar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að það sé óráð að skipta þessu fyrirtæki upp sem og öðrum orkufyrirtækjum. Við höfum raunar verið þeirrar skoðunar frá upphafi að „dírektívið“ hafi gengið of langt í íslenskri innleiðingu, að það hafi í sjálfu sér verið nóg að um bókhaldslegan aðskilnað fyrirtækjanna væri að ræða og ekki þyrfti að ganga svo langt að stofna ný fyrirtæki. Sem fyrrverandi stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur hef ég áhyggjur af þeirri viðkvæmu stöðu sem fyrirtækið sannarlega hefur verið í. Því hefur verið stýrt af festu undanfarin ár og stjórnendur fyrirtækisins hafa náð miklum árangri í að sigla því inn í meira jafnvægi en verið hefur um langt árabil. Velti ég því líka upp hvort farið hafi verið nægilega vel yfir það hvort tímasetningin gæti verið afdrifarík og erfið fyrir fyrirtækið nákvæmlega í ljósi þessa, þ.e. að fara í þetta mikla uppskiptingarferli undir slíkum kringumstæðum.

Það er auðvitað ekki tekið á rekstrarforminu í lögunum sjálfum, ég átta mig á því, en það væri gott ef hæstv. ráðherra gæti farið aðeins yfir það hvernig samspilið hefur verið við eigendur og stjórnendur Orkuveitunnar.

Ég geri mér grein fyrir því og hef orðið þess áskynja að töluverður undirbúningur þessara breytinga hefur orðið í starfi Orkuveitunnar sjálfrar og starfsfólk er væntanlega upplýst um það sem er í pípunum. Það skiptir auðvitað máli að vafa sé eytt hvað það varðar og maður hefur skilning á því að það þurfi að liggja fyrir.

Ég vil í þessari stuttu ræðu í fyrsta lagi viðra þessar efasemdir um tímasetninguna, í öðru lagi að spyrja um samráð og í þriðja lagi hvað liggur beinlínis þarna undir.

Virðulegur forseti. Ég geri mér grein fyrir því að ég er eiginlega búin að búa til allnokkuð langt andsvar sem var nú kannski ekki meiningin með því að koma hér upp í ræðustól, en þar sem mér skilst að ekki séu margir á mælendaskrá ættum við væntanlega að geta átt um þessi mál einhver skoðanaskipti, sú sem hér stendur og hæstv. ráðherra.