143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[20:38]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn spyr fyrst um mat mitt á því hverjir möguleikarnir séu á að hverfa frá þeirri tilskipun sem þessi uppskipting leiðir af. Ég veit ekki hvort það sé fullreynt — ég vil ekki taka svo sterkt til orða vegna þess að ég veit ekki hvort það hefur verið reynt af öðrum — en ég tel litlar líkur á því að það fengist í gegn. Ég vil einnig benda á að þegar eigendur Orkuveitunnar fóru þess á leit við iðnaðarráðuneytið, eins og ég greindi frá hér áðan, að gerð væri úttekt á því hvort skynsamlegt væri að hverfa frá því og hvort uppskiptingin og löggjöfin sem þetta byggir allt saman hafi verið skynsamleg var það niðurstaða Hagfræðistofnunar á sínum tíma að svo hefði verið og að þetta hefði leitt til bættrar samkeppni og skilvirkari raforkumarkaðar hér á landi. Ég sé því ekki ástæðu til þess að fara út í slíkar tilraunir.

Tímasetningin varðandi það hvort eigendur Orkuveitunnar muni senda inn neikvæða umsögn — ég ætla að eftirláta þeim að skrifa umsögn sína. Ég vil ítreka að samstarfið, aðallega við forstjóra fyrirtækisins og hans starfsfólk, varðandi uppskiptinguna hefur verið mjög gott. Eigendanefndin kom til mín, eins og ég rakti, og óskaði eftir að þessu yrði frestað. Ég ítreka að ég í ljósi þeirra gagna sem lágu til grundvallar og í ljósi þess að önnur fyrirtæki (Forseti hringir.) hafa farið í slíka uppskiptingu og þetta eru lög í landinu, sá ég ekki ástæðu til að verða við þeirri beiðni.