143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

barnaverndarlög.

186. mál
[20:49]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, og lögum nr. 80/2011, um breytingu á þeim lögum, þ.e. þingskjal 232. Kjarni þessa máls er að leggja til að fallið verði frá því að færa ábyrgð á stofnun og rekstri heimila fyrir börn, samkvæmt 84. gr. barnaverndarlaga, frá sveitarfélögum til ríkisins en sú breyting á að taka gildi 1. janúar 2014.

Málefni þetta á sér því nokkra forsögu. Um allnokkurt skeið hafa verið uppi hugmyndir um að heppilegt væri að breyta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga innan barnaverndar á þann veg að ábyrgð á heimilum fyrir börn, samkvæmt 84. gr. barnaverndarlaga, færðist frá sveitarfélögum til ríkisins. Fósturráðstafanir skyldu hins vegar áfram vera hjá sveitarfélögum. Með því móti yrðu allar vistanir barna á sérstökum heimilum eða stofnunum fyrir börn á einni hendi, þ.e. hjá ríkinu, og þar með yrði hugað að því að jafnræði barna, sem þyrftu þessar vistanir, yrði tryggt.

Hvað fjármálalegu hliðina snertir var kveðið á um að ráðuneytið setti gjaldskrá þar sem ákveðin yrðu þau gjöld sem sveitarfélag skyldi greiða vegna vistunar barna á þessum heimilum. Við samningu frumvarpsins, sem varð að lögum nr. 80/2011, gerði Samband íslenskra sveitarfélaga hins vegar fyrirvara þar sem lögð var áhersla á að ganga þyrfti frá samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga um framkvæmd tillögunnar áður en hún yrði lögfest og að þessi verkefnaflutningur ætti að taka gildi 1. janúar 2013, sem sagt fyrir tæpu ári. Verkefnaflutningnum var hins vegar frestað til 1. janúar 2014, sbr. lög nr. 113/2012.

Það sem fólst í breyttri verkaskiptingu — sú sérstaða er fyrir hendi að einungis eitt sveitarfélag hefur rekið heimili af því tagi sem hér er verið að fjalla um, sem ætti þá að færast yfir til ríkisins, og það er Reykjavíkurborg. Ljóst er að það heimili sem hefur verið rekið hér í höfuðborginni getur ekki tekið við börnum annars staðar frá án þess að skerða þjónustu við börn í Reykjavík. Því þyrfti að koma á fót nýrri stofnun fyrir börn utan Reykjavíkur eða leysa vistunarmál þeirra með öðrum hætti.

Með vísan í það sem ég hef rakið hér þyrfti þannig tvennt að liggja fyrir til að tilfærsla þessara heimila frá sveitarfélögum til ríkis gæti orðið að veruleika. Í fyrsta lagi að ríkið legði Barnaverndarstofu og velferðarráðuneytinu til fjármagn til að koma á fót og reka nýtt heimili fyrir börn utan Reykjavíkur og í öðru lagi var samþykki sveitarfélaga fyrir gjaldtöku nauðsynleg forsenda fyrir breytingunni. Nú hefur legið fyrir að hvorugt er til staðar og hér er lagt til að fallið verði frá þessum áformum. Velferðarnefnd þingsins lagði einmitt áherslu á að þessum atriðum þyrfti að koma á hreint fyrir 1. janúar 2014 til að tryggja að þetta gengi eftir og lagði samhliða til við fjárlaganefnd að velferðarnefnd yrðu tryggðir þessir fjármunir. Það náðist ekki í gegn við fjárlagagerðina fyrir 2013 og liggur heldur ekki fyrir hvað varðar fjárlagagerðina 2014 og að sama skapi, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, hefur ekki náðst samkomulag við sveitarfélögin varðandi gjaldskrá eða upptöku gjalds.

Þó að hér sé verið að leggja til þessa breytingu þá hefur mikil áhersla verið á það, frá hendi velferðarráðuneytisins, að tryggja að við getum náð þessum undirliggjandi markmiðum um ákveðið jafnræði og jöfnun á þjónustu. Hér er ekki verið að segja að verið sé að veita lakari þjónustu heldur að mikilvægt sé að reyna að veita sem sambærilegasta þjónustu á milli sveitarfélaga. Hugmyndin um tilfærslu þessarar þjónustu við börn til ríkisins er orðin nokkurra ára gömul og átti sér töluverðan aðdraganda þegar farið var í þessa lagabreytingu. Það hefur verið mat okkar sem höfum unnið að þessu máli að þær breytingar sem gerðar hafa verið varðandi ýmsa þá velferðarþjónustu sem sveitarfélögin sinna nú feli hugsanlega í sér ákveðin tækifæri til að leysa það sem snýr að jafnræði barna til þjónustunnar með öðrum hætti, þ.e. á vegum sveitarfélaganna sjálfra þannig að ekki þurfi að koma til slíks verkefnaflutnings til ríkisins.

Fram hafa komið hugmyndir um að Samband íslenskra sveitarfélaga hafi frumkvæði að því að hvetja sveitarfélög til að auka samstarf sitt og efla þjónustu við börn. Þannig er hægt að sjá fyrir sér að sveitarfélög taki til dæmis höndum saman um tiltekin þjónustusvæði líkt og verið er að gera núna samkvæmt nýlegum lögum um fatlað fólk. Aukið samstarf sveitarfélaga á sviði velferðarmála, eftir tilfærslu þjónustu við fatlað fólk til sveitarfélaga, hefur þannig aukið líkur á að hægt væri að tryggja samstarf sveitarfélaga um þetta verkefni, meðal annars hér á höfuðborgarsvæðinu en líka hringinn í kringum landið. Þar má huga að því — af því að ég nefni hér ákveðin þjónustusvæði þá er sem sagt krafa um að það séu 8 þús. manns sem tilheyra því þjónustusvæði sem varða málefni fatlaðs fólks en þegar kemur að barnaverndarmálum þá erum við að tala um umtalsvert lægri tölu sem er lágmarkskrafan.

Þetta eru ástæðurnar fyrir frumvarpinu og við teljum hér með að við séum búin að reyna það sem hægt er, á grunni þessara breytinga, til að framfylgja og tryggja að hægt sé að gera þetta. Niðurstaða okkar er hins vegar sú að það hefur ekki gengið eftir og bendum við líka á aðrar leiðir þar sem í raun er hægt að koma til móts við þá grunnhugsun að tryggja jafnræði hvað varðar þjónustuna.

Í umsögn fjárlagaskrifstofunnar varðandi fjárhag sveitarfélaganna — það er mat skrifstofu opinberra fjármála að frumvarpið, verði það að lögum óbreytt, hafi ekki áhrif til breytinga á fjárhag sveitarfélaga frá því sem nú er og hvað varðar ríkisfjármálin þá er talað um að vegna óvissu um afdrif málsins hafi ekki verið gert ráð fyrir að það kæmi til framkvæmda í forsendum fjárlagafrumvarps fyrir árið 2014. Því er ekki gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins hafi fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð á grunni þeirra ástæðna sem ég hef þegar farið í gegnum hér.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að þetta mál fari til hæstv. velferðarnefndar.