143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

barnaverndarlög.

186. mál
[20:57]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttur fyrir þessa yfirferð. Það eru kannski vangaveltur sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í vegna þess að breytingar eru í 2. gr. sem ég varð aðeins hugsi yfir miðað við það sem til stóð að gera. Hér er Barnaverndarstofu færð ákveðin stjórnvaldsheimild til að veita barnaverndarnefndum leyfi til að reka heimili og þess háttar, sem er af hinu góða því að Barnaverndarstofa á að vera þetta stjórnvald. En ef ekki hefði verið horfið frá því sem hér er verið að gera — og ég fagna því vegna þess að ég tel að veitt nærþjónusta sé betri en sú sem er veitt fjær. Í mínum huga er það til bóta að fallið sé frá þessu.

En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, hvernig var fyrirhugað eða veit hæstv. ráðherra hvernig var fyrirhugað að beita stjórnvaldinu ef Barnaverndarstofa átti sjálf að hafa umsjón með slíkum heimilum og sjá um rekstur þeirra? Hver var þá eftirlitsaðilinn þegar ríkið sjálft hafði tekið þetta til sín og gert það með þessum hætti? Hver var eftirlitsaðilinn með Barnaverndarstofu ef ekki hefði verið horfið frá þessu? Hvert væri þá stjórnvaldið sem aðilar gætu leitað til? Vangaveltur, hæstv. ráðherra.