143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

málefni RÚV.

[15:05]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Í skugga hótana formanns fjárlaganefndar fá nú 39 starfsmenn Ríkisútvarpsins uppsagnarbréf. Þrátt fyrir að verið sé að hækka útvarpsgjaldið sem við greiðum öll á næsta ári vantar Ríkisútvarpið 500 millj. kr. upp á að endar nái saman. Þrátt fyrir að við höfum hér á Alþingi samþykkt lagafrumvarp um að útvarpsgjaldið eigi að skila sér til útvarpsins tekur hæstv. fjármálaráðherra hundruð milljóna af því í ríkissjóð með þessum skelfilegu afleiðingum fyrir starfsemi útvarpsins. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé ekki tilbúinn til að endurskoða fjárlagafrumvarpið þannig að Ríkisútvarpið fái útvarpsgjaldið sem við greiðum.

Sannarlega var gripið til þess í neyðinni eftir hrunið að taka í ríkissjóð hluta þeirra tekna, en sem betur fer tókst að standa vörð um starfsemi Ríkisútvarpsins þannig að þar fækkaði þó aðeins um fjóra tugi starfsmanna á erfiðustu tímum Íslandssögunnar. Núna þegar við sjáum til lands, þegar við sjáum fram á jafnvægi í ríkisfjármálum getur það ekki gengið þannig fram í forgangsröðun ríkisfjármála að 60 starfsmenn Ríkisútvarpsins missi vinnuna, að 1/4 hluti kjarnastofnunar þjóðmenningar á Íslandi sé skorinn burtu án þess að nokkur pólitísk umræða hafi farið fram um það hér í þinginu.

Ég treysti því að hæstv. fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins hafi af því áhyggjur og sé tilbúinn til þess við 2. umr. fjárlaga sem hefst á þriðjudaginn kemur að gera nauðsynlegar breytingar á fjárlagafrumvarpinu þannig að hægt sé að forða þessu slysi og líka því að sjálfstæður fjölmiðill sem við borgum öll þurfi að sæta því að fjárlagavaldið hóti því og refsi og umbuni með fjárveitingum frá ári til árs. Við verðum að standa þannig að að sú stofnun hafi sjálfstæðan tekjustofn, geti (Forseti hringir.) flutt sjálfstæðar fréttir og gætt hagsmuna almennings (Forseti hringir.) en sé ekki undir hælnum á ríkisstjórnarflokkum á þingi.