143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

málefni RÚV.

[15:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ríkisútvarpið er eins og aðrar stofnanir í ríkisrekstrinum — reyndar erum við hér að tala um opinbert hlutafélag — í þeirri stöðu að þurfa að hagræða og það er ekki nema eðlilegt. Í tíð síðustu ríkisstjórnar var annars vegar sagt upp 30 starfsmönnum árið 2009 og hins vegar 20 árið 2010. Þannig að í tíð síðustu ríkisstjórnar var 50 starfsmönnum sagt upp.

Varðandi ráðstöfun gjaldsins sem sérstaklega er lagt á landsmenn var það einmitt þannig í tíð síðustu ríkisstjórnar að það var tekið í ríkissjóð. Í fjárlagafrumvarpinu, eins og hv. þingmaður kann að hafa tekið eftir, gerði ég grein fyrir því í sérstakri greinargerð hvernig ég sæi fyrir mér að við mundum hætta að taka þetta gjald í ríkissjóð smám saman.

Ástandið er vissulega alvarlegt og það er alvarlegur hlutur þegar tugir starfsmanna fá uppsagnarbréf. Við hugsum til þeirra sem í þeirri stöðu eru í þessu félagi alveg eins og annars staðar þar sem þrengingar eru. En við getum ekki litið undan þegar ríkissjóður er rekinn með rúmlega 30 milljarða halla á árinu 2013 og hljótum að þurfa að grípa til ráðstafana. Í meðferð fjárlagafrumvarpsins verður að horfa til allra þátta ríkisrekstrarins, líka þeirra fjármuna sem eru til ráðstöfunar til að halda úti ríkisfjölmiðlinum.