143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

niðurskurður fjárveitinga til RÚV.

[15:19]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ætla líka að gera RÚV að umfjöllunarefni hér í dag. Eins og við höfum heyrt í fréttum er RÚV að bregðast við niðurskurði. Maður er hugsi yfir þessum fréttum og veltir fyrir sér hvort hættan sé sú að við stöndum uppi með stofnun sem er verri á öllum sviðum, þ.e. aðeins verri Rás 2, aðeins verra Kastljós, aðeins færri fréttir. Það er væntanlega ekki það sem við viljum.

Við getum rætt það endalaust hvernig Ríkisútvarp við viljum reka og hvað við ætlum að setja mikið í það. Ætlum við að setja 500 milljónir í það og hafa höfuðstöðvarnar á Egilsstöðum? Hafa bara útvarp eða hafa eina útvarpsrás og hætta útsendingum á fimmtudögum? Það geta verið alls konar leiðir.

Það sem mér finnst vera lykilspurningin er: Hver er stefna stjórnvalda? Hvaða sýn hafa menn á RÚV? Hvernig tengjast uppsagnirnar núna, sem er í þriðja skiptið sem fjöldauppsagnir eru á RÚV, þessari stefnu og þessari sýn?

Ég man eftir því þegar svæðisstöðvunum var lokað úti á landi. Ég held reyndar að innan við 5% starfsmanna RÚV séu úti á landsbyggðinni. Þetta er „konsentrerað“ á höfuðborgarsvæðinu þannig að ég hef líka áhyggjur af því að þjónustan við landsbyggðina verði enn minni eftir þessar uppsagnir.

Ég vil fá skýrt svar frá hæstv. ráðherra, sem lagði í rauninni lykkju á leið sína til þess að hafa stjórn RÚV pólitíska, við því hver stefnan er varðandi RÚV. Hvernig sér hann RÚV fyrir sér í framtíðinni? Munum við eiga von á frekari uppsögnum?