143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

sameiningar heilbrigðisstofnana.

[15:28]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég ítreka fyrst af öllu að með þeim áformum sem kynnt eru í fjárlagafrumvarpinu er að því stefnt að styrkja grunn fyrir heilbrigðisþjónustu við íbúa þeirra svæða sem þar um ræðir. Það er markmiðið með því sem að er stefnt.

Það er rétt, ég hef fundað með heimamönnum í Vesturbyggð, Patró og Tálknafirði, og Skagafirði, ekki bara flokksmönnum heldur var líka mjög fjölmennur og góður fundur á Ljósheimum í Skagafirði síðastliðinn laugardag. Það voru málefnalegar og góðar umræður heilt yfir. Heimamenn hafa áhyggjur af þessu, sérstaklega því sem lýtur að uppbyggingu stofnana, setja fram sín rök, sérstaklega til varnar opinberum störfum heima í héraði sem full ástæða er til að gefa gaum. Ég vil þó leggja áherslu á að mitt hlutverk, mín ábyrgð og skylda liggur fyrst og fremst til þess að tryggja landsmönnum heilbrigðisþjónustu.

Ég er sannfærður um að þau þrjú heilbrigðisumdæmi sem út af standa, Vestfirðirnir, Norðurland og Suðurland, þurfa að ganga í gegnum skipulagsbreytingu á stofnanastrúktúr. Ég er sannfærður um það. Ég skal fúslega viðurkenna að nálgast má þetta með öðrum hætti en gert hefur verið, efna til víðtækara samráðs við heimamenn og ég vænti góðs af því. Ég legg jafnframt áherslu á að þær óskir sem komið hafa fram frá sveitarfélögum þar sem hv. þingmaður kallaði tilraunaverkefni — þetta eru ekki nein tilraunaverkefni lengur. Þetta er alvöruþjónusta og ef gerðir verða samningar við sveitarfélög um einstaka þætti heilbrigðisþjónustu ber að gera þá til lengri tíma. Tilraunaverkefnin voru hafin 1996, þeim lauk um árið 2000 ef ég man rétt. Það er ekki lengur um þau að ræða. Ég lýsi yfir fullum vilja til að skoða ákveðna þætti í heilbrigðisþjónustunni sem sveitarfélögin geta sinnt en mér ber hins vegar að vekja athygli á því að landlæknir hefur metið það svo (Forseti hringir.) í skýrslum sínum að sveitarfélög eigi (Forseti hringir.) … vandræðum með að taka að sér slíka þjónustu.