143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

sameiningar heilbrigðisstofnana.

[15:31]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Sveitarfélög bera ekki ábyrgð á heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Það gerir ríkið og ber að axla alla þá ábyrgð og þær skyldur. Varðandi það sem hv. þingmaður minntist á um samgöngurnar og erfiðleikana við að tryggja mönnun heilsugæslu Patreksfjarðar frá Ísafirði þá vil ég bara minna hv. þingmann á að á Patreksfirði er ein læknisstaða. Enginn þeirra lækna þriggja sem sinna því á árinu býr á viðkomandi stað. Þeir þurfa ýmist að sækja frá Keflavík, frá Ísafirði eða Bolungarvík til að veita þá góðu læknisþjónustu sem á Patreksfirði er veitt. Þannig að samgöngur hamla því ekki. Ég er sannfærður um að þetta verkefni snýst fyrst og fremst um stjórnun og skipulag. Ég hef þá trú og allar faglegar athuganir styðja það að með sameiningu sé meiri trygging fyrir því að við getum veitt betri og öruggari sérfræðiþjónustu meðal annars út á þessi dreifbýlissvæði.

Ég hef aldrei lokað á það að taka upp viðræður við sveitarfélög um einstaka þætti. Tíminn mun leiða í ljós (Forseti hringir.) með hvaða hætti það verður gert.