143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

94. mál
[15:49]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allrar allsherjar- og menntamálanefndar, það var sátt um málið í nefndinni. Þetta er frumvarp til laga um breytingu á lögum um Neytendastofu og talsmann neytenda. Megintilgangur frumvarpsins er að gera stjórnsýslu neytendamála skilvirkari þannig að verkefni talsmanns neytenda flytjast inn til Neytendastofu og sú þekking og sá mannauður sem þar er mun nýtast til að efla neytendamál. Einnig munu Neytendasamtökin koma aðeins að hlutverki talsmanns neytenda.

Þetta er sem sagt liður í heildarendurskoðun á neytendamálum sem fer nú fram í innanríkisráðuneytinu, er bara einn liður í því. Sú heildarendurskoðun mun halda áfram með það að markmiði að efla neytendavernd.

Við fengum fjölmarga gesti á fund nefndarinnar og allir voru á því að þetta væri rétt skref. Ein athugasemd kom um að kannski væri ekki gengið nógu langt og þyrfti að taka málið lengra en það er bara eðlilegt af því að í gangi er heildarendurskoðun og þetta er einn liður í því.

Ein athugasemd kom frá Mannvirkjastofnun um raffangaeftirlit, um að Neytendastofa og Mannvirkjastofnun mundu deila með sér eftirliti með rafföngum sem skiptist þannig að Neytendastofa fer með eftirlit með þeim rafföngum sem ekki eru varanlega tengd mannvirkjum en hvað varðar þau rafföng sem varanlega eru tengd við mannvirki er eftirlitið hjá Mannvirkjastofnun. Skilin þarna á milli eru ekki alltaf skýr og Mannvirkjastofnun fer með allt rafmagnsöryggiseftirlit í landinu. Mannvirkjastofnun fer með markvisst eftirlit með rafföngum sem eru varanlega tengd við mannvirki og líka með markvisst eftirlit með byggingarvörum. Þetta skarast mikið og ákvað nefndin því að taka þetta til sérstakrar skoðunar og vinnur nú að lagafrumvarpi sem mun að mestu koma til móts við umsögn Mannvirkjastofnunar og mun örugglega líta dagsins ljós hér fljótlega.

Annars held ég að vinna nefndarinnar hafi bara gengið vel og ég legg til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Engar breytingartillögur komu fram í nefndinni og þess vegna held ég að það eigi bara að halda áfram.