143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

könnun á hagkvæmni þess að draga úr plastpokanotkun.

102. mál
[16:10]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari þingsályktunartillögu. Mér finnst þetta brýnt mál. Sumar þjóðir hafa skoðað hvort beinlínis sé hægt að banna plastpoka. Mig minnir að Ítalir hafi verið komnir nokkuð langt með það. Þetta hefur einnig verið til umræðu í Evrópusambandinu. Hv. flutningsmaður talaði um Kaliforníu í þessu sambandi og það er reyndar alveg ótrúlegt en Kalifornía er á sumum sviðum mjög framarlega í umhverfismálum. Það er til dæmis skylt í Kaliforníu að merkja skaðleg kemísk efni á umbúðir. Það eru strangari reglur þar en í Evrópu þannig að mér finnst sjálfsagt að horfa þangað í þessum málum.

Það er bær í Englandi sem heitir Modbury. Hann var fyrsti bærinn til að verða plastpokalaus. Það eru komin fimm, sex ár síðan. Kona nokkur sem vann hjá BBC var að mynda í Kyrrahafinu, fuglalíf og annað, og hún varð vör við umræddar plastpokaeyjur og sá hvaða áhrif þær höfðu á dýralífið. Henni fannst hún ekki geta setið aðgerðalaus og varð í rauninni upphafsmaðurinn að því að í Modbury, þessum litla bæ, voru plastpokar bannaðir — ja, bannaðir, þ.e. maður er ekki sektaður en ef maður mætir með plastpokann er manni gefið illt auga. Allir lögðust á eitt, líka seljendur. Búinn var til taupoki sem var með merki bæjarins eða einhverju. Ég hef haft þessa hugmynd varðandi Akureyri en hún hefur ekki fallið í góðan jarðveg. Þetta virðist vera svolítið stórt skref fyrir okkur.

Ég velti fyrir mér þegar ég les þingsályktunartillöguna hvort við þurfum raunverulega að láta kanna þjóðhagslega hagkvæmni þess að minnka plastpokanotkun hér á landi. Ég held að við ættum kannski frekar að stíga skref í þá átt að minnka plastpokanotkun. Við vitum að það er hagkvæmni í því. Vissulega er til nokkuð sem heitir Pokasjóður sem getur úthlutað styrkjum vegna þess að við kaupum plastpoka, en við getum alveg sett þessar 15 eða 20 krónur í einhver góð málefni ef við viljum það.

Ég er eindregið hlynnt málinu og veiti því stuðning og vona að það fái góða umfjöllun í nefnd og að við gerum jafnvel aðeins meira en hér segir og ákveðum beinlínis að stíga einhver skref í átt að minni notkun plastpoka.