143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

könnun á hagkvæmni þess að draga úr plastpokanotkun.

102. mál
[16:17]
Horfa

Flm. (Margrét Gauja Magnúsdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka orð hv. þingmanns og kvæðisstúfinn einnig. Hann er góður og höfundurinn enn betri.

Ég vil einnig nýta tækifærið í þessu andsvari til að taka undir orð þingmanns sem kom í pontu áðan. Hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir talaði um að ég væri kannski of hógvær í þessari þingsályktunartillögu og það hefði verið lag að taka skrefið alla leið. Ég get svo sem tekið undir að það sé kannski ákveðið reynsluleysi og hógværð í því og ríkur vilji til að ná þverpólitískri samstöðu um málið þannig að við getum unnið þessu betri framgang. Ég treysti þá bara á að umhverfis- og samgöngunefnd taki þingsályktunartillöguna til umfjöllunar og skerpi á henni ef stemningin er þannig í þeirri nefnd. Ég vil allt til vinna að ýta þessu máli áfram og að við tökum skrefin lengra.

Eins og ég sagði einnig í ræðu minni bíður okkar ákveðin tímasetning, 2025. Þá verður ekki lengur leyfð á Íslandi urðun yfir 5% á því sem farga verður. Við verðum að finna þessu farveg eða draga úr framleiðslunni.