143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

könnun á hagkvæmni þess að draga úr plastpokanotkun.

102. mál
[16:19]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tel þessa þingsályktunartillögu afar þarfa og fagna því að hún sé komin fram. Það er mikilvægt að vekja máls á þessum hluta neyslusamfélagsins en ég tek líka undir vangaveltur þeirra sem hafa nefnt það að jafnvel mætti ganga lengra og að það verkefni sem ráðherra fengi væri að bera saman leiðir að því markmiði að hætta notkun plastpoka. Ég er ekki viss um að við þurfum að láta kanna þjóðhagslega hagkvæmni þess að minnka notkunina, heldur þurfum við hreinlega að bera saman vænlegustu leiðirnar að þessu markmiði. Það kemur líka fram í greinargerð að þær eru ýmsar til, m.a. skattlagning og aðrar miðlægar leiðir til að draga úr magni þessara umbúða í umferð.

Ég held að það skipti mjög miklu máli í þessu samhengi að halda því alltaf til haga að hér er fyrst og fremst um að ræða mjög sýnilega afurð neysluhyggjunnar. Það dugar ekki bara að horfa á þennan enda, þ.e. draslið sem fellur til, heldur verðum við líka að horfa á byrjunina á keðjunni, þ.e. allt sem við kaupum og allt sem við berum með okkur heim. Ég man sjálf eftir að hafa heyrt af aðgerðum sem var stýrt af neytendasamtökum eða einhverjum grasrótarhópum bæði í Danmörku og Þýskalandi þar sem fólk fór þá leið að skilja umbúðir eftir í verslunum, þ.e. fara inn, kaupa vöru, ávexti, grænmeti, morgunkorn og annað því um líkt, og skilja til að mynda kassann utan af morgunkorninu eftir en taka bara innri pakkninguna með sér, taka ávextina úr plastinu og skilja pakkningarnar eftir í versluninni til að beita smásöluna þrýstingi, síðan líka dreifingaraðila og framleiðendur, til að draga úr notkun á plasti í öllu ferlinu. Mér finnst til dæmis miður að sjá slíkt hjá smásöluaðilum sem bjóða jafnvel lífrænt ræktað grænmeti þar sem ein lítil paprika er bæði í plastbakka og svo með plast utan um. Hins vegar getur maður fengið fjöldaframleidda papriku frá útlöndum sem er seld í lausu og skilur eftir sig vistspor af því að hún hefur komið hingað með flugvél o.s.frv. Þetta er umræða sem þarf að vekja víða í samfélaginu og einhverjar svona aðgerðir væru ein leið til að víkka hana.

Hér komu fram í framsögu hv. þingmanns og hjá fleirum langtímaáhrifin af plastnotkun, m.a. á lífríki sjávar. Þetta er alveg skelfilegt inngrip í náttúruna þannig að það er ekki spurning um hvort eða hvenær heldur hvernig við hættum þessu. Þetta er einfaldlega viðfangsefni og verkefni sem gerir ekkert annað en að vinda upp á sig.

Það sem mér finnst skipta mestu máli í þessari nálgun er að hugsa um bæði möguleika og aðkomu opinberra aðila, sveitarfélaga og ríkis, síðan verslunar og þjónustu, atvinnulífsins og framleiðenda, dreifenda og smásöluaðila, og svo auðvitað það sem títt er nefnt í svona umræðu, vitundarvakningin góða meðal grasrótarhreyfinga, einstaklinga, fjölskyldna, hópa o.s.frv. Allir þessir aðilar þurfa að leggja sitt af mörkum til að markmið þessarar góðu tillögu hv. þingmanns náist.