143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

umbótasjóður opinberra bygginga.

103. mál
[16:33]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari þingsályktunartillögu sérstaklega. Ég tel að það sem hv. framsögumaður fór með í rökstuðningi sínum fyrir þessu máli sé á þann veg að augljóst sé að við verðum að ræða um byggingar sem víða standa og hafa lokið hlutverki sínu. Hvort sem við gerum það með því að stofna umbótasjóð eða á annan hátt — ég vona að viðkomandi þingnefnd velti því nánar fyrir sér því að ég tel að það verði líka að vera einfaldari leið til að koma byggingum í áframhaldandi not. Við eigum að sjálfsögðu alls ekki að bíða eftir því að góðar og veglegar byggingar, sem eru í góðu ástandi en stofnanir ríkisins eru hættar að nota, drabbist niður, við eigum að gæta þess þegar farið er út úr þeim húsum.

En það er annar þáttur sem ég vildi vekja athygli á í sambandi við þessa umræðu. Víða um land, eins og framsögumaður gat um, standa byggingar sem eru í umsjá stofnana, hvort sem það heita framhaldsskólar eða háskólar eða aðrar stofnanir, byggingar sem hafa lokið hlutverki sínu út af breyttum tíðaranda, breyttum kröfum. Viðkomandi stofnanir eru kannski að reyna að nýta þær byggingar að takmörkuðu leyti með tilheyrandi kostnaði og greiða þá Fasteignum ríkissjóðs leigugjald. Nú þegar herðir að í fjármálum þessara stofnana fer þetta að vigta þyngra en áður.

Ég nefni eitt dæmi sem nýlega hefur borist inn á borð fjárlaganefndar sem eru hin gömlu staðarhús Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, gamla Hvanneyrar-staðarmyndin, sem eru í sjálfu sér byggingar sem háskólinn hefur ekki full not fyrir og hefur á undanförnum árum verið að reyna að finna hlutverk fyrir. Til stendur að flytja Landbúnaðarsafn Íslands yfir í gamla fjósið á Hvanneyri sem byggt var 1928, byggja upp ferðaþjónustu í gamla skólahúsinu o.s.frv., sem í sjálfu sér er ekki hlutverk Landbúnaðarháskólans. Þetta má að sjálfsögðu segja líka um gamla héraðsskóla og slíkt. En bara þetta litla dæmi þýðir að sú stofnun er að greiða Fasteignum ríkissjóðs 25–26 milljónir kr. í leigu fyrir hús sem hún þarf ekki á að halda. Það mundi sannarlega muna um það í rekstri þeirrar stofnunar að geta lagt það frá sér. Þannig held ég að það sé í rekstri og bókhaldi mjög margra stofnana allt í kringum landið og líka hér á höfuðborgarsvæðinu.

Vandi þeirra stofnana sem hafa umsjón með þessum byggingum er sá að þær vita ekki hvert á að leggja frá sér þessar fasteignir. Ef þær leggja þær frá sér þá er í sjálfu sér enginn kominn til að hlúa að þeim og sjá um þær og þá fer mjög fljótt að halla undan fæti þegar rúða brotnar o.s.frv. Þessa sögu þekkjum við mjög vel og á mjög stuttum tíma geta mikil verðmæti glatast og ekki síst menningarverðmæti.

Eins og hv. framsögumaður, flutningsmaður þessarar tillögu, rakti er oft og tíðum ekki um auðugan garð að gresja að finna húsum ný hlutverk. Hvort sem við stofnum umbótasjóð eða annað einfalt kerfi hvað varðar meðhöndlun þessara bygginga og notkun þá verðum við líka að vera tilbúin að sætta okkur við að selja þær — af því að ég vil ekki útiloka söluleið heldur — á mjög lágu verði, sé það þá tryggt að sá sem við byggingunni tekur sýni henni þann sóma sem við æskjum. Ég tel því fullkomlega tímabært að huga að þessu, ekki síst í ljósi þess, sem ég hef rakið hér, að margar stofnanir þyrftu að geta lagt frá sér byggingar sem þær hafa umsjón með til að koma rekstrinum í lag eða bæta reksturinn. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir marga staði úti um landið að gæta að staðarmynd sinni, sem þessi hús eru oft tákn fyrir.