143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

virðisaukaskattur.

166. mál
[17:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég ætla að leggja orð í belg um frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt þar sem 1. gr. hljóðar svo: „Heimilt er að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa á varmadælu til upphitunar íbúðarhúsnæðis.“

Ég tel málið mjög þarft og styð það heils hugar. Eins og kom fram hjá frummælanda áðan er þetta mál sem við þekkjum frá fyrri þingum. Það fékk ágæta umfjöllun á síðasta þingi og var góð samstaða um að það væri brýnt til að hægt væri mæta miklum húshitunarkostnaði á köldum svæðum á landsbyggðinni. Því miður náði málið ekki fram að ganga á síðasta þingi þó að ég hafi þá trú að mikill meiri hluti hafi verið fyrir því á síðasta þingi. Ég hef væntingar um að við getum klárað málið sem ég held að heilt yfir sé samstaða um þó að efasemdarraddir, eins og komu fram hjá hv. þingmanni áðan í andsvari, séu vissulega til. Ég held að þetta sé ein af þeim leiðum sem við getum farið til þess að lækka húshitunarkostnað á landsbyggðinni sem er ærinn og þeir sem þekkja til hans vita að hann er því miður að sliga mörg heimili á landsbyggðinni og er mjög hátt hlutfall af útgjöldum heimila þar sem ráðstöfunartekjur eru ekki miklar.

Þekkt er sagan af Vestfirðingnum sem flutti til Reykjavíkur úr einbýlishúsi og ætlaði að borga orkureikning fyrir alla blokkina þar sem hann var álíka hár og fyrir einbýlishús hans vestur á fjörðum. Ég get sagt um sjálfa mig sem held tvö heimili, bæði vestur á fjörðum og hér á höfuðborgarsvæðinu, að þar sem ég á mitt heimili vestur á fjörðum er húshitunarkostnaður hátt í 300 þús. kr. á ársgrundvelli en á höfuðborgarsvæðinu er húshitunarkostnaður tæpar 50 þús. kr. Það þarf kannski ekki að hafa fleiri orð um hvernig þetta kemur mismunandi við buddu fólks eftir því hvar það býr á landinu.

Ég tek undir orð hv. þm. Kristjáns Möllers, ég tel aðgerðina þjóðhagslega hagkvæma fyrir þau 8–10% þjóðarinnar sem búa við langhæsta húshitunarkostnaðinn. Þótt hún leysi ekki allan vanda er hún hluti af því sem hægt er að gera til að mæta þessum húshitunarkostnaði. Ég tel stóra málið auðvitað vera að við gerum það með einhvers lags jöfnunaraðgerðum. Ég tel að Alþingi eigi að vinda sér í að leggja fram tillögur eins og hafa komið fram hjá nefnd sem fjallaði um málin um jöfnun húshitunarkostnaðar, að koma á jöfnunargjaldi á framleidda kílóvattstund sem mundi verða til þess að jafna raforkukostnað og húshitunarkostnað í landinu.

Niðurgreiðslur hafa því miður ekki haldið í við þá þróun sem áætluð var og við þurfum að koma sterkar inn þar því að þær hafa dregist mjög aftur úr í þeim efnum. Ég ætla að vitna í mál sem var til umræðu á síðasta þingi þar sem kemur fram að húshitunarkostnaður í dreifbýli frá árinu 2000 hefur hækkað um 43% á svæði Rariks en á sama tíma lækkað um 28% á höfuðborgarsvæðinu. Við verðum að fara að taka þau mál föstum tökum. Ég tel að þetta mál sé gott innlegg í það og við megum ekki draga lappirnar í því að leysa það í stóra samhenginu. Við erum með jöfnun flutningskostnaðar varðandi til dæmis olíuvörur, flutningsjöfnunarsjóð olíuvara, og við eigum þar sem því verður við komið að jafna svona kostnað. Ég tala nú ekki um þar sem um er að ræða sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar sem ég tel hita í jörðu og orku vera, landsmenn eiga að sitja við sama borð og það á að vera hægt að koma á þannig kerfi að fólk búi við sambærilegan húshitunarkostnað og raforkukostnað burt séð frá því hvar það velur sér búsetu í landinu.