143. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2013.

virðisaukaskattur.

166. mál
[17:24]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka framlagningu þessa máls og framsöguræðu flutningsmanns, hv. þm. Kristjáns L. Möllers, sem flutti ítarlega greinargerð með málinu. Hann vék í fáum atriðum út frá henni frá eigin brjósti en allt sem hann bætti við var til merkis um það að hann flutti örugglega einhverja sína mögnuðustu þingræðu sem ég hef heyrt. Ég get í öllu tekið undir þau sjónarmið sem hann setti þar fram.

Það sem ég hefði kannski helst viljað bæta við hans ágætu ræðu vegna mikilvægis þessa máls og taka undir með öðrum sem hér hafa talað er það gríðarlega ójafnrétti í búsetuskilyrðum sem við búum við og nauðsyn þess að við ráðumst á það ójafnrétti úr mörgum áttum og reynum að minnka það sem frekast við megum. Þetta er sannarlega ein af þeim aðferðum sem við höfum til þess að lækka húshitunarkostnað, en hér hefur hann verið rakinn mjög nákvæmlega og flutningsmaður fór yfir það hve gríðarlega miklu getur munað í kostnaði á milli landsvæða.

Það sem ég vildi helst bæta við greinargerð hv. þingmanns eru þeir möguleikar sem varmadælur gefa okkur til viðbótar því sem áður hefur verið þekkt og áður hefur verið rakið við að reyna að nota lághitasvæðin. Með slíkum tækjabúnaði blasir nú við sá möguleiki að nota borholur sem gefa tiltölulega lágan hita eða vatn með mjög lágu hitastigi og breyta þannig lághitaholum í mjög orkugefandi holur og geta raunverulega magnað upp þá orku sem þar kemur úr jörðinni. Þetta er kannski sá angi málsins sem minnst hefur verið fjallað um og minnst verið rannsakaður og ég vildi þess vegna vekja máls á því í umræðunni.

Það sem hv. þm. Páll Jóhann Pálsson rakti í ræðu sinni sem innlegg í þessa umræðu vil ég með ákveðnum hætti skilja þannig að það sé vissulega miklu hraðvirkari leið að jafna húshitunarkostnað með því að gefa vel í niðurgreiðslur á rafmagni eða veita góðan afslátt á orkutöxtum, en það er einfaldlega ekki í boði. Þess vegna er sú leið nefnd og talað fyrir því að gefa eftir virðisaukaskatt og tolla á varmadælum. Það mun mögulega flýta því að við komumst í það horf að geta kynt hús okkar með ódýrari hætti. Síðan vil ég við það bæta að það er einfaldlega mjög ábyrg afstaða að spara rafmagn og spara orku á öllum sviðum og það getur aldrei verið annað en góður kostur.

Til viðbótar því sem hér er lagt til, að lækka eða fella niður virðisaukaskatt og í framhaldinu að beita sér fyrir því að fella niður tolla á þessum tækjabúnaði, vil ég nefna að tækjabúnaðurinn er mjög dýr. Á hvaða verði hann hleypur fer að sjálfsögðu eftir aðstæðum hverju sinni og hússtærð og slíku en hann getur verið mjög umtalsverður, ekki síst felst mjög mikill kostnaður í uppsetningunni. Eins og hv. framsögumaður rakti hér er stofnkostnaðurinn við þessar framkvæmdir það hár að hann er kannski ekki á færi venjulegra heimila að ráðast í nema með þessum hliðarráðstöfunum. Því gæti það átak sem stjórnvöld hafa staðið fyrir á undanförnum árum og verður nú framlengt, átakið Allir vinna þar sem endurgreiddur er virðisaukaskattur af vinnu iðnaðarmanna við viðhald húsnæðis og framkvæmdir á heimilum auðveldlega aftur ýtt undir þann vilja að setja upp slíkan búnað.

Þetta frumvarp er nú talsvert mikið rætt og mikið unnið, þannig að ég hef í sjálfu sér góðar vonir um að það geti unnist hratt í nefndinni og hvet eindregið til þess. Ég vek aftur á því athygli að hér er um mikið þjóðþrifamál að ræða. Það er flutt af þingmönnum allra flokka nema Pírata og með samþykkt þess gefum við á engan hátt afslátt á þeirri kröfu okkar að dreifikostnaður á rafmagni úti um allt land verði jafnaður sem mest á milli íbúa í þessu raforkuríka landi. Það er nánast hlálegt að koma út í dreifbýlið þar sem línur veitufyrirtækjanna liggja í gegnum lönd bænda og lönd landeigenda og vita að það sé viðurkennt í samfélaginu í dag að þar eigi að borga hæsta kostnað við að dreifa rafmagni. Þetta mál gefur engan afslátt á því viðhorfi okkar að þar þurfum við að bæta í og breyta og jafna dreifikostnað á raforku hér á landi.