143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs í dag, undir liðnum störf þingsins, til að minna á hina lægstlaunuðu í þjóðfélaginu. Ég hef alltaf verið láglaunamaður sjálfur, alla mína tíð, og á undanförnum dögum og vikum hefur kjarabarátta hinna lægst launuðu birst okkur í ljósvakamiðlum og á netinu. Auglýsing frá SA, Samtökum atvinnulífsins, hefur valdið miklu róti á meðal verkalýðsforustunnar sem svaraði svo til baka með myndbandi og vel má orða það svo að í því líki hún Samtökum atvinnulífsins við Hitler og hans hyski. Í þeirri auglýsingu kemur fram að lægstu launin megi alls ekki hækka um meira en 2%. Nú hef ég verið meðal hinna lægst launuðu æði lengi og stóran part af lífi mínu og ég á ofboðslega erfitt með að sætta mig við eða átta mig á því hvernig það getur sett þjóðfélagið á hliðina að hækka lægstu launin á sama tíma og verið er að tala um að sjávarútvegur og fiskvinnsla hafi aldrei gengið jafn vel, methagnaður sé í verslun, ferðaþjónusta hafi aldrei staðið jafn vel og nú — samt er alveg vonlaust að hækka launin hjá þessu fólki.

Í raun er verið að gefa í skyn að frekjulegar — ef ég má segja það orð, hæstv. forseti — kröfur hinna lægst launuðu kosti alltaf verðbólgu og launaskrið. Mér finnst þetta ótrúlega fornlegur málflutningur og enn á ný ætlum við að skilja þennan hóp eftir. Það er ekkert sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu sem á að mæta þessum hóp, skattalækkanir eða aukinn persónuafsláttur eða neitt, og síðan koma Samtök atvinnulífsins og segja að laun megi ekki hækka um meira en 2%.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar stóð að hún ætlaði að mynda sátt og auka samlyndi í þjóðfélaginu. Eitt af því væri til dæmis að koma verulega til móts við þennan hóp sem alltaf situr eftir, og ég vona að það verði gert.