143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég var að koma af fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þar sem ríkislögreglustjóri var fyrir svörum. Við spurðum hann um njósnir, sem sagt samstarf íslenska ríkisins og yfirvalda, lögreglunnar, ríkislögreglustjóra, greiningardeildar lögreglunnar við NSA eða Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna og leyniþjónustur Bandaríkjanna almennt. Ég bað ríkislögreglustjóra um að gefa okkur upplýsingar og sýndi honum mynd sem við þingmenn Pírata fengum um þann tæknibúnað sem er staðsettur á Íslandi og notaður til að safna upplýsingum á Íslandi, að okkur er sagt. Það var bókað í fundargerð. Við biðjum um svar frá ríkislögreglustjóra varðandi hvaða búnaður þetta sé, hvernig hann sé notaður og hvernig hann tengist samstarfi íslenskra lögregluyfirvalda við leyniþjónustur Bandaríkjanna. Við munum upplýsa betur um það þegar fram í sækir.

Það ánægjulega á þessum fundi var að ríkislögreglustjóri sagði óaðspurður að það væri mikilvægt að þingið hefði víðtækara eftirlit með lögreglunni til að auka traust á þeirri stofnun. Því fögnum við að sjálfsögðu og munum þegar fram í sækir vinna betur, vonandi með öllum flokkum, að slíku eftirliti því að það eru gríðarlega alvarlegar upplýsingar sem við höfum fengið um að íslensk lögregluyfirvöld séu mögulega að safna upplýsingum hér á Íslandi og deila þeim með erlendum yfirvöldum. Ég spurði um hvaða eftirlit væri haft með því að greiningardeildin fari ekki umfram heimildir sínar en það virðist vera tiltölulega takmarkað og það er nokkuð sem þarf að bæta.