143. löggjafarþing — 28. fundur,  28. nóv. 2013.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegur forseti. Það sem veldur mér miklum áhyggjum þessa dagana er ástandið í Kolgrafafirði og það mikla náttúruslys sem gæti verið að endurtaka sig þar. Ég hef fylgst nokkuð vel með því máli og ég verð að segja að hæstv. sjávarútvegs- og umhverfisráðherra hefur virkilega staðið vaktina og er greinilegt að reynt er að gera allt sem hægt er til þess að koma í veg fyrir síldardauðann. Ég er þeirrar skoðunar að ef brúin yfir fjörðinn veldur því á einhvern hátt að síldin safnast þarna saman, þar sem hún fær ekki nægt súrefni og drepst, verði að taka á því máli varanlega. Svona náttúruslys mega ekki endurtaka sig ár eftir ár.

Ég er ánægð með að þarna séu komnir rauntímamælar til að mæla súrefnismagn í sjónum og í gær kom fram í fréttum að varpa ætti einhvers konar neðansjávarsprengjum til að fæla síldina út úr firðinum. Fulltrúar Landhelgisgæslunnar sögðust þess fullvissir að sprengingarnar mundu ekki skemma lífríkið í sjónum meira en orðið er, en nýjustu fregnir herma að þeir ætli að nota svokallað „thunder flash“, með leyfi forseta, ég kann ekki að segja það á íslensku. Mér skilst að það séu litlir kínverjar, (Gripið fram í.)þ.e. sprengjurnar, þannig að það sé alveg á hreinu.

Ég sé líka að það er að störfum þverfaglegt gjörgæsluteymi sem vaktar stöðina í Kolgrafafirði og ég vona svo sannarlega að okkur takist að bægja frá slysi í þetta sinn, en síðan verður að leysa málið varanlega. Ég sendi öllum þeim sem að þessu flókna verki standa baráttukveðjur.